Vefþjóðviljinn 6. tbl. 16. árg.
Mikið er rætt um Evrópusambandið og þann ásetning annars stjórnarflokksins, og þar með ríkisstjórnarinnar því hinn hlýðir ennþá í málinu, að Ísland skuli þangað inn. Sumum þykir umræðan vera oft yfirborðsleg og að þar sé á báða bóga æpt og fullyrt, án þess að traust þekking og yfirveguð afstaða búi að baki.
Þeim sem þetta finnst má vera fengur að litlu kveri sem út kom á dögunum, þar sem fjallað er um Evrópusambandsmálin og stöðu Íslands af meiri yfirvegun og þekkingu en oft býðst. Síðastliðið sumar skrifaði Tómas Ingi Olrich, fyrrverandi ráðherra og sendiherra, vandaðan greinaflokk í Morgunblaðið þar sem hann fjallaði um Evrópusambandsmálin á grundvelli afar langrar reynslu sinnar. Þeim greinum hefur nú verið safnað á litla bók sem í dag bætist í Bóksölu Andríkis.
Í inngangi bókarinnar segist Tómas Ingi hafa fylgst af áhuga með samrunaþróun Evrópu, allt frá því hann stundaði nám í Frakklandi í valdatíð de Gaulle. Sem stjórnmálamaður, sem meðal annars var formaður utanríkismálanefndar Alþingis, hafi hann átt samstarf við evrópska stjórnmálamenn og einnig sem skýrsluhöfundur Vísinda- og tæknimatsnefndar Evrópuþingsins. Eftir stjórnmálaferilinn hafi hann svo verið sendiherra Íslands í Frakklandi, Spáni, Ítalíu og Portúgal, og hafi því í rúmlega hálfa öld fylgst með þeirri þróun sem ríkisstjórn Íslands hafi nú ákveðið að Ísland verði hluti af. Á þessum grunni skrifar Tómas Ingi greinaflokk sinn og er óhætt að mæla með bók hans fyrir alla þá sem vilja vanda sig við myndun skoðana á Evrópusambandsmálum.
Í nýjasta hefti tímaritsins Þjóðmála skrifar Ólafur Egilsson, einn allra reyndasti sendiherrann í sögu íslenskrar utanríkisþjónustu, um bók Tómasar Inga. Segir Ólafur þar meðal annars:
Tómas Ingi Olrich lýsir að miklu leyti þróun sem hann hefur fylgst með jafnharðan og hún gerðist. Þá hefur hann í störfum sínum síðari árin átt náinn aðgang að mönnum og meðferð mála, sem dýpkað hafa innsýn hans og skilning á kjarnaatriðum. Loks setur skýr framsetning hins reynda menntaskólakennara ánægjulegt mark á bókina. … Rit Tómasar Inga Olrich geymir mikinn hagnýtan fróðleik. Þeir sem það lesa eru því vel í stakk búnir til að átta sig á hagsmunum Íslendinga í þessum efnum í bráð og til lengri tíma. Eins og gefur að skilja verður á efnisskipan séð að ritið er að stofni til greinaflokkur. Þannig ber sum efnisatriði fyrir oftar en einu sinni. En það er þá gjarna í mismunandi samhengi og styrkir þekkinguna í sessi.
Bók Tómasar Inga, Ísland og ESB, fæst í Bóksölu Andríkis og kostar þar 1.700 krónur og er heimsending innanlands innifalin í verðinu eins og alltaf í bóksölunni. Við erlendar pantanir bætist sendingargjald.