Vefþjóðviljinn 10. tbl. 16. árg.
Þótt það hafi ekki verið nema rúmum tveimur áratugum eftir að Jóhanna og Steingrímur settust á þing muna ef til vill einhverjir eftir því þegar Steinunn Valdís Óskarsdóttir var gerð að borgarstjóra í Reykjavík. Þá hafði Þórólfur Árnason látið af störfum sem borgarstjóri R-listans en hann hafði tekið við af Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur þegar hún efndi á sinn hátt opinberar heitstrengingar og loforð sitt við samstarfsflokkana í R-listanum um að fara ekki í þingframboð. Það gerði Ingibjörg Sólrún með því að setjast í baráttusæti Samfylkingarinnar í Reykjavík í þingkosningum árið 2003.
Samfylkingin, VG og Framsóknarflokkur toguðust því á um hver ætti að taka við af Þórólfi.
Niðurstaðan varð að lokum sú að velja þann borgarfulltrúa, tja hvernig á að orða þetta, sem síst væri líklegur til að höfða til kjósenda í næstu kosningum. Það var gert til að koma í veg fyrir forskot eins flokksins ef þeir byðu fram hver í sínu lagi. Enginn flokkur mátti eiga sterkan borgarstjóra þegar kæmi að kosningum.
Vefþjóðviljinn var eiginlega búin að gleyma þessu þegar hin faglega Samfylking valdi sér og þjóðinni fjármálaráðherra á dögunum.
Þar virðist einkum tvennt hafa ráðið vali. Annars vegar mátti ráðherraefnið ekki vera líklegt til að ógna Jóhönnu ef hún kysi að halda áfram sem formaður á næsta landsfundi. Hins vegar mátti ekki gera upp á milli þeirra sem gætu hugsað sér að taka við af Jóhönnu ef hún hætti. Brottrekstur Árna Páls Árnasonar úr ríkisstjórninni féll svo að báðum þessum forsendum.
En í fjölmiðlum er þessi niðurlæging túlkuð sem miklir sigrar í jafnréttisbaráttunni og til marks um að Samfylkingin „treysti konum.“