Miðvikudagur 23. nóvember 2011

Vefþjóðviljinn 327. tbl. 15. árg.

Ferðaskrifstofa háskólamanna er meðal annars fjármögnuð af Evrópusjóðum.
Ferðaskrifstofa háskólamanna er meðal annars fjármögnuð af Evrópusjóðum.

Fyrr í vikunni var upplýst að heildarkostnaður Háskóla Íslands vegna ferðalaga starfsmanna væri 237 milljónir króna – á fyrstu níu mánuðum ársins. Það er rúmlega ein milljón króna á hverjum virkum degi. Það er búið að skera allsstaðar inn að beini í ríkisrekstrinum.

Kristín Ingólfsdóttir rektor skólans útskýrði nánar í Morgunblaðinu í dag hvernig þessi kostnaður skiptist.

Það er þannig að rúmlega helmingur af þessum ferðum er kostaður af öðrum. Þetta eru ferðir sem eru farnar vegna rannsóknarverkefna og þær eru kostaðar af samkeppnissjóðum og að langmestu leyti erlendum sjóðum eins og Evrópusjóðum og norrænum sjóðum og slíku.

Það er mikið rætt um „hagsmunaskráningu“ kjörinna fulltrúa og allir ætla framvegis að passa sig á laxveiði, fríum drykkjum og framlögum í prófkjörssjóði. En hvað með launaða fulltrúa landsmanna í háskólunum sem eru alltaf að veita landslýð leiðsögn um Evrópumál og „aðlögunarferlið“ í Speglinum og Víðsjá?

Hvaða áhrif hefur það á þessa menn að sitja nokkrum sinnum á ári í þotum, hótelherbergjum og veislum á kostnað „Evrópusjóða“?

Það er varla flókið aðlögunarferli.