Þriðjudagur 22. nóvember 2011

Vefþjóðviljinn 326. tbl. 15. árg.

Njáll Ferguson, höfundur metsölubókarinnar Peningarnir sigra heiminn, skrifaði grein um Evrópu árið 2021 í The Wall Street Journal í gær. Við lestur greinarinnar rennur jafnvel upp fyrir Já-Áfram-Sterkari-Sjálfstæðum-Sammála-Guðbirni-Bensa-Stephensen að umsókn um aðild að Evrópusambandinu árið 2011 er eins og að ganga í hjónaband á þriðja degi fjögurra daga svallveislu í Vegas.

Menn vita ekkert hvað þeir fengu eða hvað gerist næst.

Lýsing Fergusons er auðvitað öðrum þræði skemmtiefni en sýnir vel hve margt er í deiglunni í gömlu álfunni. Hann telur meðal annars að líklegra sé að Grikkir og Ítalir yfirgefi sjálft Evrópusambandið en evrusamstarfið, þvert á spár margra annarra.

Ferguson lýsir því hvernig Bretar með sitt gríðarlega fjármálakerfi hafa sloppið með skrekkinn í fjármálakreppunni sem lék Evrópu svo grátt:

Bretar voru heppnir. Óvild milli Tony Blair og Gordon Brown kom í veg fyrir að Bretar tækju upp evru þegar Verkamannaflokkurinn komst til valda árið 1997. Bretar gátu því forðað sér frá efnahagslegri glötun þegar fjármálakreppan reið yfir. Staða ríkisfjármála í Bretlandi var litlu skárri en í löndunum við Miðjarðarhaf og bankakerfið margfalt stærra en í öðrum Evrópulöndum. Ef Bretar hefðu verið með evruna hefðu þeir orðið Írland í áttunda veldi.

Ferguson spáir því að evran lifi fjármálakreppuna af þótt margir hljóti að velta því fyrir sér eftir að gjaldmiðlar verða nær eingöngu rafrænir hvers vegna menn voru eiginlega að ómaka sig á því að sameina allar þessar myntir undir nafni evrunnar. Hann telur að nýr bankastjóri Evrópska seðlabankans muni fljótlega teppaleggja skuldabréfamarkaði með nýprentuðum evrum og bankinn verði í raun lánveitandi til þrautarvara – fyrir ríkissjóði evrulandanna.

Ferguson getur þess einnig að þýska ríkið muni fljótlega standa frammi fyrir því að endurfjármagna stóru þýsku bankana. Í því samhengi er rétt að hafa í huga að skuldir þýska ríkisins eru nú þegar á svipuðu róli og íslenska ríkisins eða um 90% af landsframleiðslu.

Steingrímur J. Sigfússon er búinn að endurfjármagna, á kostnað íslenskra skattgreiðenda, öll þau fjármála- og tryggingafélög sem fundust í landinu og ekki var búið að setja í slitameðferð áður en fólkið með kirnunar og innihaldið úr koppunum sínum kom honum til valda.

Merkel á þetta allt eftir.