Föstudagur 18. nóvember 2011

Vefþjóðviljinn 322. tbl. 15. árg.

Í dag birti Fréttatíminn niðurstöður könnunar sem stuðningsmenn aðildar Íslands að Evrópusambandinu fengu Capacent til að gera fyrir sig um hug landsmanna til aðildarviðræðna við sambandið. Þar er hengt á annan svarmöguleikann að honum fylgi þjóðaratkvæðagreiðsla um málið. Þetta er sama bragð og Fréttablaðið notar þegar það gerir kannanir um sama efni. Svarendur fá ekki að taka afstöðu til ESB aðildarviðræðna án þess að lýsa í leiðinni afstöðu sinni til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hér fylgja þrjár tillögur að viðhorfskönnnunum sem Fréttablaðið og aðrir áhugamenn um þessa aðferðafræði gætu gert í framhaldinu:

Hversu hlynntur eða andvígur ertu Fréttablaðinu?

  1. Mjög andvígur blaðinu og haldinn sjúklegu hatri á þjóðaratkvæðagreiðslum.
  2. Frekar andvígur blaðinu og frú Vigdísi.
  3. Mjög hlynntur blaðinu og friði á jörð.
  4. Frekar hlynntur blaðinu og vil að þjóðin fái að hafa síðasta orðið.

Á Ísland að taka upp dauðarefsingar?

  1. Já, við skulum kjósa um það í þjóðaratkvæðagreiðslu.
  2. Nei.

Ertu fylgjandi eða andvígur því að lokið verði samningum um NORPOS II og þjóðin fái að greiða atkvæði um samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu?

  1. Já.
  2. Nei.