Fimmtudagur 17. nóvember 2011

Vefþjóðviljinn 321. tbl. 15. árg.

Í vikunni bættust tvær nýjar bækur við í Bóksölu Andríkis en Almenna bókafélagið gefur þær báðar út.

Svavar Gestsson fyrrverandi alþingismaður og ráðherra kemur oft við sögu í þeim báðum. Um hvað gætu þær verið? Jú, rétt til getið, kommúnismann og Icesave-samningana svonefndu.

Í bók sinni Íslenskir kommúnistar 1918 – 1998 segir Hannes H. Gissurarson prófessor sögu einnar áhrifmestu stjórnmálastefnu 20. aldar og hvernig hún markaði íslenskt þjóðfélag. Sagan er rakin frá götuóeirðum í Kaupmannahöfn árið 1918 sem tveir Íslendingar taka þátt í og verða kommúnistar, frá Kommúnistaflokknum, gegnum Sósíalistaflokkinn og loks Alþýðubandalagið sem rann inn í Samfylkinguna aðeins ári eftir að Margrét Frímannsdóttir og fleiri forystumenn Alþýðubandalagsins létu það verða eitt sitt síðasta verk að fara í boðsferð á vegum kúbverksa kommúnistaflokksins.

Margt í starfi íslenskra kommúnista kemur jafnvel fólki sem fylgdist með hluta þessarar 80 ára sögu í návígi á óvart. Margt gleymist á langri leið og sumt er svo lygilegt að því trúir vart nokkur maður nema sjá sönnunargögn eins og ljósmynd af blaðaskrifum.

Þjóðviljinn kallaði Morgunblaðið „Blað handa geðsjúklingum“ þegar Morgunblaðið minntist Stalíns með þeim orðum að hann hefði látið skjóta marga andstæðinga sína. Þjóðviljinn sagði þetta í fyrirsögn á forsíðu.

Hvað ætli svona lagað yrði nefnt í dag, þegar minnsta tilraun til gagnrýni er kölluð átakastjórnmál og skotgrafarhernaður?

Þetta er spennandi saga fyrir alla áhugamenn um stjórnmálasögu skrifuð á þeirri kláru íslensku sem einkennir bækur Hannesar og enginn hefur verr af. Bókin er ríkulega skreytt ljósmyndum. Íslenskir kommúnistar 1918 – 1998 kostar kr. 6.699 í Bóksölu Andríkis og er heimsending innanland innifalin í verði.

Hin bókin er Icesave samningarnir – afleikur aldarinnar? eftir Sigurð Má Jónsson fyrrverandi ritstjóra Viðskiptablaðsins. Þar er sagt frá vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar og samningnefnda við gerð Icesave samninganna þriggja.

Þetta er fróðleg samantekt og þarft verk að safna þessari furðulegu atburðarás á bók. Meðal þess sem rifjað er upp er þetta einstæða viðtal sem „ungi maður“ á við Steingrím J. Sigfússon í ágúst 2009. Þar skýrir fjármálaráðherrann meðal annars hvers vegna Svavar Gestsson sendiherra var gerður að formanni samninganefndar.

Icesave samningarnir – afleikur aldarinnar? kostar kr. 3.999 og er heimsending innanlands innifalin í verði. Við pantanir til Bretlands og Hollands bætast kr. 900.