Miðvikudagur 16. nóvember 2011

Vefþjóðviljinn 320. tbl. 15. árg.

MMR hefur að beiðni Andríkis kannað viðhorf manna til aðildarviðræðna íslenskra stjórnvalda við Evrópusambandið.

Spurt var:

Hversu fylgjandi eða andvíg(ur) ertu því að íslensk stjórnvöld dragi umsókn um aðild að Evrópusambandinu til baka?

Niðurstöðurnar eru afdráttarlausar. Minnihluti, 35,3%, vill halda umsókninni til streitu en 50,5% vilja draga umsóknina til baka.

Könnun MMR fyrir Andríki var gerð 10. til 14. nóvember 2011. Svarendur voru 879. Könnunina í heild sinni má finna hér.

Vert er að vekja athygli á því að hér er spurt með einföldum og skýrum hætti um málið. Fréttablaðið hefur stundum spurt um þetta sama mál en jafnan hrært þjóðaratkvæðagreiðslu saman við annan svarmöguleikann til að gera hann girnilegri.

Nú berast einnig tíðindi af því að Capacent Gallup hafi látið sig hafa sig út í að spyrja með sama hætti og Fréttablaðið. Þar mun spurt á eftirfarandi hátt:

Hvort vilt þú slíta aðildarviðræðum við ESB eða ljúka aðildarviðræðum og fá að kjósa um samning í þjóðaratkvæðagreiðslu?

1.         Slíta aðildarviðræðum.

2.         Ljúka aðildarviðræðum við ESB og fá að kjósa um samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu.

3.         Vil ekki svara.

4.         Veit ekki.

Hér er svarendum gert að hafna þjóðaratkvæðagreiðslu vilji þeir slíta viðræðum. Er það sanngjarnt? Hvað ætli kæmi út úr könnun þar sem gefnir væru eftirtaldir kostir?

1. Slíta aðildarviðræðum og ganga til þjóðaratkvæðis um framhaldið.

2. Ljúka aðildarviðræðum við ESB.