Mánudagur 14. nóvember 2011

Vefþjóðviljinn 318. tbl. 15. árg.

Þvert á væntingar krata og fjölmiðlamanna getur enginn farið í formannsframboð í Sjálfstæðisflokknum nema gerast mikill andstæðingur Evrópusambandsins.   Mynd: xd.is.
Þvert á væntingar krata og fjölmiðlamanna getur enginn farið í formannsframboð í Sjálfstæðisflokknum nema gerast mikill andstæðingur Evrópusambandsins. Mynd: xd.is.

Ríkisstjórn Ítalíu lét af völdum um helgina. Við tekur stjórn ókosinna „sérfræðinga“ undir forystu fyrrverandi framkvæmdastjórnarmanns Evrópusambandsins. Þetta gerist nokkrum dögum eftir að forsætisráðherra Grikklands var rekinn frá völdum eftir að hafa ákveðið að spyrja grísku þjóðina álits á efnahagsfyrirmælum Evrópusambandsins.

Allir menn sem hafa opin augun sjá að evruríkin færast jafnt og þétt nær sambandsríki. Þjóðverjar og Frakkar, ásamt kommisörunum í Brussel, tala nú opinskátt um að sameiginlegur gjaldmiðill gangi ekki nema efnahagsstjórnin sé sameiginleg. Það þýðir að ákvarðanir í ríkisfjármálum þurfa að gilda á öllu evrusvæðinu. Núverandi kanslari Þýskalands segir núna annan hvern dag að „falli evran fellur Evrópa“, en núverandi kanslari mun ekki gera greinarmun á Evrópu og Evrópusambandinu.

Það er því alveg ljóst að núverandi stjórn Þýskalands ætlar að tryggja að evran lifi með góðu eða illu. Og þegar jafnframt er viðurkennt að ein efnahagsstjórn á evrusvæðinu sé óhjákvæmileg eigi evran að lifa, þá er ljóst hvert menn ætla að stefna.

Og inn í þetta samband vilja íslenskir kratar alveg óðir og uppvægir. Enn vitlausari menn segjast svo vilja „ljúka viðræðum“, svona eins og ekki liggi fyrir hvað Evrópusambandið er.

Nýjasta tilraunin til að þrýsta Íslendingum lengra að evrubjargbrúninni er krafa Samtaka atvinnulífsins um að inngöngubeiðninni í Evrópusambandið verði haldið til streitu. Sálufélagar kratanna í stjórn Samtaka atvinnulífsins munu svo góla það sama á komandi landsfundi Sjálfstæðisflokksins en ekki ná þar neinum árangri. Innan Sjálfstæðisflokksins er nú svo sterkur stuðningur við fullveldi Íslands, þvert á væntingar krata og fjölmiðlamanna, að nú getur enginn farið í formannsframboð nema gerast mikill andstæðingur Evrópusambandsins mörgum vikum fyrir landsfund.