Helgarsprokið 13. nóvember 2011

Vefþjóðviljinn 317. tbl. 15. árg.

Því er sífellt haldið fram að fólk beri lítið traust til stjórnmálamanna. Viðhorfskannanir styðja þetta, þótt hvað fóðri kannski hvað annað í þeim efnum og úr verði svelgur sem erfitt er að komast upp úr.

Ýmsir virðast telja að úr þessu vantrausti megi bæta með því að láta kalla til nýja stjórnmálamenn í stað þeirra sem fyrir eru. „Burt með þá alla saman, hvern einn og einasta“, er gólað. „Við þurfum nýtt fólk í þetta allt saman.“

En auðvitað að engin trygging fyrir því að nýir stjórnmálamenn verði betri en þeir sem fyrir eru þótt fáir trúi því sjálfsagt að hægt sé að finna lakari eintök en þau sem stýra Íslandi nú um stundir með 60 ára samanlagða þingsetu að baki.

Vefþjóðviljinn vill því sem oft áður bjóða upp á sátt og miðla málum.

Hvernig væri að fækka þessum stjórnmálamönnum sem svo lítli almenn ánægja er með? Og fækka svo einnig þeim verkefnum sem þeir eiga að sinna en virðast vanrækja svo að enginn treystir þeim lengur?

Undanfarna áratugi hefur ríkisvaldið þanið sig út á flesta enda og kanta.

·         Hið opinbera hefur hirt sífellt stærri sneið kökunnar með skattheimtu.

·         Lög og reglur hafa aldrei verið fleiri og nærgöngulli.

·         Opinbert eftirlit hefur aldrei verið meira.

·         Opinberir starfsmenn aldrei verið fleiri.

·         Ný met í greiðslu bóta eru sett á hverju ári.

Þetta er almenn lýsing á þróuninni í mörgum vestrænum ríkjum. Það sem faldi þessa þróun var mikið velmegunarskeið eftir fall kommúnismans og ekki síður sjálfumgleði Vesturlanda eftir þann mikla sigur fyrir frelsi og mannréttindi í heiminum. Til að veislan gæti haldið sleitulaust  áfram notaði ríkisvaldið seðlaprentunarvald sitt til að keyra vexti niður í gólf þegar minnsti grunur lék á að einhver ætlaði að kveikja ljósin og benda á að dansgólfið sjálft væri froða.

Bandaríski hagfræðingurinn Milton Friedman var sannspár um þetta efni þegar árið 1990 í fyrirlestri um frjálshyggju og auðmýkt. Hann sagði að frjálshyggjumenn gættu ekki að sér á heimavelli eftir hinn frábæra árangur á útivelli gegn liði Sovétríkjanna. Hann sagði að atburðirnir í Austur-Evrópu hefðu frekar haft neikvæð áhrif á baráttuna fyrir frjálsu þjóðfélagi í Bandaríkjunum. Hrun kommúmismans hefði skapað andrúmsloft hroka og sjálfsánægju.

Fyrirlestur þennan er að finna ásamt mörgu öðru forvitnilegu má finna á nýjum vef CATO stofnunarinnar libertarianism.org.