Fimmtudagur 10. nóvember 2011

Vefþjóðviljinn 314. tbl. 15. árg.

Með því leggja fram nokkrar grískar ólívur mátti fá þennan disk í Evrópska seðlabankanum.
Með því leggja fram nokkrar grískar ólívur mátti fá þennan disk í Evrópska seðlabankanum.

Frá árinu 2007 hafa skuldir hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu 34 ríkja Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu, OECD, hækkað úr 73% í 98% að meðaltali. Það er þrátt fyrir að vöxtur hafi að meðaltali verið yfir 4% á þessum þremur árum.

Þessi 34 ríki skulda nú um 40 trilljónir bandaríkjadala (4.500.000.000.000.000.000 krónur) sem er gersamlega óskiljanleg tala að öðru leyti en því að öllum ætti að vera ljóst að frekari skuldsetning er óðs manns æði.

Franski hagfræðingurinn Florin Aftalion lagði út af þessum tölum í The Wall Street Journal í fyrradag. Hann segir að ríkisaðstoð hafi fleytt mörgum bönkunum gegnum síðustu kreppu og því misbjóði fólki eðlilega alls kyns framferði bankamanna. En hvers vegna höguðu bankamenn sér svo óskynsamlega?

Í raun fylgdu bankarnir Basel II reglunum, sem áttu að hafa taumhald á þeim. En þessar reglur voru hannaðar til að auðvelda lán til hins opinbera. Basel II reglurnar gera ráð fyrir, ekki að ástæðulausu, að því meiri áhætta sem lán hefur í för með sér því meira beri að leggja til hliðar sem varúðarráðstöfun. Því miður gera Basel II reglurnar ráð fyrir að lán til hins opinbera sé nánast án áhættu því ríki geti ekki orðið gjaldþrota. Ríkisskuldabréf eru því að hluta eða öllu leyti undanþegin reglum um eiginfjárbindingu.

Bankarnir fylgdu þessum reglum sem þeim voru settar og keyptu grísk, ítölsk og portúgölsk ríkisskuldabréf í stórum stíl og notuðu þau sem tryggingu til að slá gríðarleg lán í Evrópska seðlabankanum á þýskum kjörum.

Aftalion segir að sumir kalli þetta græðgi bankamanna en þeir fylgdu bara reglunum sem stjórnmálamennirnir settu þeim, sömu stjórnmálamenn og hafa dælt út ríkispappírum fyrir 10 trilljónir dala frá árinu 2007.

Menn munu sjálfsagt halda því fram að þetta fína Basel regluverk, samkrull einkabanka, ríkisstjórna og Evrópska seðlabankans og brjálæðisleg skuldsetning ríkja sé ein birtingarmynd frjálshyggjunnar.