Vefþjóðviljinn 315. tbl. 15. árg.
Mánuðum saman voru óeirðir í Grikklandi. Gríðarlegt eignatjón og óspektir, ráðist á lögreglu, rúður brotnar, bílar og hús brennd. Ekkert haggaði þó ríkisstjórn Papandreous, enda ekki víst að starfsmenn gríska ríkisútvarpsins fari með það eins og vopn í baráttu fyrir eigin skoðunum. Löglega kjörin ríkisstjórn Grikklands hélt því ótrauð sínu striki og gerði sitt besta til að uppfylla þýskar og franskar kröfur stjórnenda Evrópusambandsins.
Allt þar til forsætisráðherra Grikklands gerði þau grundvallarmistök að ákveða að leita álits hjá aðila sem koma ákvarðanir Evrópusambandsins í málefnum Grikklands ekki við, grísku þjóðinni.
Viku eftir að forsætisráðherrann ákvað að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu og ríkisstjórnin lýsti sérstökum stuðningi við þá ákvörðun, voru bæði hann og ríkisstjórnin horfin á braut og nýr maður sestur í valdastólinn, nýkominn úr starfi hjá evrópska seðlabankanum.
Ekki er vitað hvað Georg Papandreou mun taka sér fyrir hendur nú þegar hann hefur skyndilega verið hrakinn frá völdum. En talið er líklegt að hann verði gestaprófessor við Smáríkjastofnun Háskóla Íslands þar sem hann muni stýra námskeiðum um áhrif smáríkja á Evrópusambandið með Baldri Þórhallssyni varaþingmanni og prófessor. Sennilega munu brottreknir ítalskir ráðherrar einnig taka að sér stundakennslu á námskeiðinu.