Miðvikudagur 9. nóvember 2011

Vefþjóðviljinn 313. tbl. 15. árg.

Jóhanna Sigurðardóttir beitir sér.
Jóhanna Sigurðardóttir beitir sér.

Í morgun skrifaði Árni Matthíasson, blaðamaður á Morgunblaðinu, skoðanapistil á miðopnu blaðsins og fjallaði þar um þá skoðun sína að „óvíða verða konur fyrir meira aðkasti fyrir að vera konur en einmitt í stjórnmálastarfi.“

Sem dæmi um þetta vonda aðkast, sem konur verða fyrir af því að þær eru konur, tók Árni það sem hann sagði Jóhönnu Sigurðardóttur þurfa að „þola í opinberri umræðu“ og sagðist hann þá ekki eiga við „deilur um stefnumál, heldur það hvernig henni er legið á hálsi fyrir að vera kona beint og óbeint. Þannig er henni núið um nasir að hún sé gleymin, kunni ekki erlend tungumál og sé ekki nógu mikill leiðtogi, ekki nógu landsföðurleg, en það er löngu vitað að konur verða aldrei landsföðurlegar – þær verða bara kerlingarlegar.“

Hér er með furðulegum hætti reynt að láta eins og einhver gagnrýni á Jóhönnu Sigurðardóttur formann Samfylkingarinnar sé einfaldlega komin til af því að hún sé kona. En hvernig hefur verið talað um aðrar konur sem náð hafa langt í stjórnmálum? Var oft sagt að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir kynni ekki erlend mál? Eða væri enginn leiðtogi?

Er ekki staðreynd að Jóhanna Sigurðardóttir hefur verið mjög treg til að hitta erlenda þjóðarleiðtoga? Er ekki staðreynd að erlendir blaðamenn hafa furðað sig mjög á því hversu illa þeim gangi að fá viðtöl við forsætisráðherra Íslands? Hefur þetta ekki staðið frá upphafi valdatíðar hennar? Var það ekki þannig, strax fyrsta dag minnihlutastjórnarinnar, að þá sátu flokksformenn fyrir svörum á blaðamannafundi og þá var tekið fram í upphafi að fyrst fengju íslenskir blaðamenn orðið en þegar kæmi að erlendum blaðamönnum þyrfti Jóhanna að yfirgefa fundinn í brýnum erindagjörðum?

Er þetta ekki einfaldlega rétt? Þeir sem nefna þetta, ráðast þeir á Jóhönnu fyrir að vera kona? Hversu aumar geta afsakanir verið? Ef forsætisráðherra Íslands, á miklum örlagatímum þegar erlend ríki reyna að kúga landið með aflsmun og afarkostum, neitar ítrekað að hitta erlenda þjóðarleiðtoga og tala máli Íslands, eru þeir sem gagnrýna það þá bara að núa ráðherranum því um nasir að ráðherrann er kona?

Auðvitað er talað illa um konur í stjórnmálum. En það er ekki vegna þess að þær eru konur. Núorðið er einfaldlega talað afar illa um flesta þá sem ná langt í stjórnmálum.

En stundum getur verið heppilegt að vera kona í stjórnmálum. Í sumum stjórnmálaflokkum, þar sem femínistar og rauðsokkur hafa verið í litlum metum, hefur konum á framabraut stundum nægt að vera ólíkar staðalmynd femínistanna. Flokksfélagar þeirra hafa verið svo ánægðir með að þær séu ekki gólandi um femínisma daginn út og inn, að þeir hafa ekki gert neinar aðrar kröfur til þeirra, heldur kosið þær hæstánægðir.