Þriðjudagur 8. nóvember 2011

Vefþjóðviljinn 312. tbl. 15. árg.

Tækifærin í sjálfbærum rekstri eru í og á fjöllum. Segja stjórnmálamennirnir.
Tækifærin í sjálfbærum rekstri eru í og á fjöllum. Segja stjórnmálamennirnir.

Þeir tínast snemma ofan af fjöllum í ár, sveinarnir sem gera allt fyrir ekkert.

Í gærmorgun lýsti Steingrímur J. Sigfússon því yfir að ráðuneyti hans teldi að göng gegnum Vaðlaheiði yrðu „sjálfbær“. Í fljótu bragði hefði mátt ætla að vinstrigrænir væru búnir að komast að þeirri niðurstöðu að gróðurhúsagas frá bílum væri gott svo lengi sem þeir væru í gangi inní norðlenskri heiði. Svona eins og akstur gámaflutningabíla fram og til baka um bæi þykir góður ef farmurinn er handflokkað sorp. En Steingrímur mun þarna hafa notað „sjálfbært“ um rekstur og fjármál ganganna. Hann telur reksturinn geta borið sig.

Í fyrradag steig Gunnar Axel Axelssson bæjarfulltrúi gjaldþrota Hafnarfjarðar fram á völlinn og sagðist vonast til að hafin yrði framleiðsla á snjó í Bláfjöllum innan tíðar. Þannig yrði skíðasvæðið „svo til sjálfbært“. Aftur fletti Vefþjóðviljinn í grænlensku orðabókinni sinni til að fullvissa sig um merkingu orðsins „sjálfbært“. En bæjarfulltrúinn var eins og Steingrímur að tala um fjármál. Hann telur að rekstur skíðasvæðisins í Bláfjöllum geti orðið „sjálfbær“ ef menn bora eftir vatni og kaupa snjóbyssur fyrir 250 milljónir króna – í fyrsta áfanga. Ályktun þessa efnis var samþykkt á fundi hjá samtökum sveitarstjórnarmanna á suðvesturlandi á föstudag. Var það gert að tillögu bæjarstjórnar Álftaness sem bauð fram einstæða sérfræðiþekkingu sína á kaupum á mörghundruð milljóna króna vatnsleiktækjum.

Þetta eru góðar fréttir fyrir skattgreiðendur sem hafa ekki aðeins þurft að vera sjálfbærir með sjálfa sig undanfarin ár heldur með sífellt meiri byrðar af alls kyns framsæknum verkefnum hins opinbera á borð við fæðingarorlof og tónlistarhús.

Þarna eru hins vegar tvö sjálfbær verkefni og því engin frekari ástæða fyrir aðkomu hins opinbera. Þau bíða þess eins að athafnamenn með áhuga á sjálfbærum rekstri grípi gæsina.