Vefþjóðviljinn 311. tbl. 15. árg.
Sífellt bætast bækur í Bóksölu Andríkis. Á dögunum kom þar bókin Peningar, græðgi og Guð, þar sem andæft er misskilningi og rangfærslum um efnahagsmál og kapítalisma og hraktar ýmsar goðsagnir um græðgi, neysluhyggju og sjálfselsku. Nú hefur bæst í bóksöluna Síðasta vörnin eftir Óla Björn Kárason blaðamann og stofnanda Viðskiptablaðsins.
Í bókinni rekur höfundur dæmi um óheilbrigða viðskiptahætti í íslensku viðskiptalífi á síðustu árum fyrir bankahrun og færir rök fyrir því að þeir hafi þrifist í skjóli dóma í svokölluðum Baugsmálum. Hafi dómarnir orðið til þess að ýmislegt, sem áður hafi verið talið ólögleg, hafi síðan verið áltið löglegt. Þá segir Óli Björn ýmislegt benda til þess að mjög ríkar kröfur sem dómstólar hafi gert til ákæruvaldsins í þessum málum hafi orðið til þess að draga mátt úr þeim sem unnið hafi að rannsókn hugsanlegra efnahagsbrota.
Eftir því sem lengri tími líður frá hruni bankanna opnast augu fólks fyrir fleiri og fleiri atriðum sem skipta máli þegar það tímabil og árin á undan eru metin. Spunameistarar og álitsgjafar hafa auðvitað látið dæluna ganga árum saman og vilja vitaskuld helst sitja einir að umræðunni. Þeir hafa farið svo mikinn í því að slá föstu hvað hafi gerst og hvers vegna, að sumum þeirra finnst hreinlega sem verið sé að „endurskrifa söguna“ ef kenningar þeirra eru ekki teknar góðar og gildar eða ef fleiri vilja fá að tjá sig. Engin ástæða er hins vegar til þess að láta þá eina hafa orðið. Fyrr á þessu ári varð bók Björns Bjarnasonar, Rosabaugur yfir Íslandi, að óvæntri metsölubók og ekki er vafi á að margir munu einnig kynna sér sjónarmið Óla Björns af opnum huga.
Síðasta vörnin fæst í Bóksölu Andríkis og kostar þar 2.900 krónur og er heimsending innanlands innifalin í verðinu eins og alltaf í Bóksölunni. Við erlendar pantanir bætist 900 króna sendingargjald. Rétt er að vekja einnig athygli á því, að nýlega var tekin upp sú nýbreytni að viðskiptavinir geta einnig greitt fyrir keyptar bækur með millifærslu á bankareikning ef þeir kjósa það fremur en að nota greiðslukort.