Helgarsprokið 6. nóvember 2011

Vefþjóðviljinn 310. tbl. 15. árg.

Einkum hér áður og fyrr var talsvert rætt um „samtryggingu flokkanna“. Hún þótti ekki gott fyrirbæri. Nú virðist frasinn „átakastjórnmál“ hafa leyst samtrygginguna af hólmi sem helsta skammaryrðið um stjórnmálaflokkanna. Því jafnvel hnýtt við að þarna sé fjórflokkurinn kominn í skotgrafirnir rétt eina ferðina – þar sem hann skýtur væntanlega á sjálfan sig. Svo virðist sem það sé að mestu leyti sama fólkið sem notar þessi lítt upplýsandi slagorð til að bæta sér upp erindisleysið í þjóðmálaumræðuna.

Bergþór Ólason skrifaði grein í Morgunblaðið í gær sem ber heitið „Átakastjórnmál eru alger nauðsyn“. Þar víkur hann fyrst að því hverslags ríkisstjórn er í landinu og hvernig hún varð til. Það er einföld og góð lýsing.

Ekki leynir sér að núverandi stjórnvöld í landinu eru í byltingarhug. Þau komust til valda í kjölfar óeirða, náðu þingmeirihluta þegar þjóðin var enn í losti eftir bankahrun, og hafa frá upphafi verið staðráðin í því að láta kné fylgja kviði. Sérstaklega er þeim uppsigað við allt sem er líklegt er til að geta verið kjölfesta í landinu. Stjórnarskrá landsins er auðvitað grunnur stjórnskipunarinnar og því hefur hún verið samfellt í skotlínunni. Svo áríðandi er atlagan að stjórnarskránni í huga valdhafanna, að þeir hikuðu ekki við að hafa úrskurð æðsta dómstóls landsins, Hæstaréttar, að engu í því einkastríði sínu. Þannig má áfram telja. Sjávarútvegurinn er undirstaða efnahagslífsins og algerlega ómetanlegur nú á erfiðum tímum. Honum skulu hins vegar engin grið gefin, ef núverandi stjórnvöld fá að ráða. Þau eru nefnilega með kreddur þar eins og annars staðar, og hafa einsett sér að lögleiða þær á meðan þau hafa völdin.

Alls staðar sjást afleiðingar þess að vinstrimenn náðu völdum. Skattar eru hækkaðir jafnt og þétt. Stjórnvöldum nægir auðvitað ekki að hækka þá skatta sem fyrir voru, þau finna stöðugt upp á nýjum sköttum og virðast á því sviði einu fá nýjar hugmyndir á degi hverjum. Þau virðast líta á hinn almenna borgara sem hverja aðra eign sína, sem bæði megi skattleggja í hæstu hæðir og skipuleggja niður í smáatriði.

Svo segir Bergþór um pólitík tæknikratanna og samræðustjórnmálin:

Undanfarin misseri hafa ýmsar skynditískur riðið yfir íslenska þjóðmálaumræðu. Þeir sem sjálfir hafa ekki sérstaka grundvallarafstöðu til mála tala nú gjarnan fyrir „samræðustjórnmálum“. Í þeirra huga snúast þjóðmál ekki um neina grundvallarafstöðu eða lífssýn, en eru bara eitthvert verkefni. Þeir vilja að stjórn og stjórnarandstaða „vinni saman að bestri niðurstöðu“. Þetta hljómar líklega vel við fyrstu heyrn, en hvað þýðir þetta í raun? Þetta er í raun samsæri kjörinna fulltrúa úr öllum áttum um að halda friðinn, til að tryggja eigin þægindi. Skyndilega stendur stór minnihluti kjósenda í raun uppi málsvaralaus. Stjórnarmeirihluti fær hins vegar ekki aðhald öflugrar stjórnarandstöðu og hann þarf ekki lengur að gera mál sín þannig úr garði að þau þoli slíka eldskírn. Meirihluti og minnihluti fallast einfaldlega í faðma bak við luktar dyr og enginn ber neina ábyrgð. Málum er ekki lengur ráðið til lykta í samræmi við grundvallarsjónarmið eða lífssýn, en verða þess í stað að tæknilegu úrlausnarefni. Stjórnmálamenn hætta að standa fyrir hugsjónir eða meginstefnu, en verða sérfræðingar í því að rugga ekki bátum. Rýnihópar og skoðanakannanir verða þeirra helstu áttavitar, stefnuskráin frasar og tungumálið froða.

Já er það ekki rétt að krafan um samræðustjórnmál sé bara nýtt orð yfir „samsæri kjörinna fulltrúa úr öllum áttum um að halda friðinn, til að tryggja eigin þægindi“? Með öðrum orðum krafa um að fá samtrygginguna aftur?