Miðvikudagur 19. október 2011

Vefþjóðviljinn 292. tbl. 15. árg.

Róbert Marshall hugar ætíð að velferð embættis ríkislögreglustjóra.
Róbert Marshall hugar ætíð að velferð embættis ríkislögreglustjóra.

Á dögunum slógu fjölmiðlar því upp að Róbert Marshall, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrum forstöðumaður NFS, hefði krafist þess að að Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri víki þegar í stað úr embætti, að minnsta kosti tímabundið. Og skýringin var auðvitað ekki blóðþorsti eða heift út í Harald, heldur auðvitað aðeins umhyggjan fyrir ríkislögreglustjóraembættinu. Ríkisendurskoðun hafði gert athugasemdir við nokkur innkaup embættisins og hinn grandvari þingmaður Samfylkingarinnar sá strax að þjóðarhagur krefðist skjótra aðgerða: „Það sem skiptir mestu máli er trúverðugleiki ríkislögreglustjóra og hann hefur boðið hnekki í þessu máli og honum ber þess vegna að setja hag síns embættis framar persónulegum hag og fara frá á meðan á þessu stendur“, sagði Róbert Marshall af umhyggju sinni fyrir embætti ríkislögreglustjóra.

Nei, Samfylkingarmenn mega ekki til þess hugsa að trúverðugleiki embættis ríkislögreglustjóra minnki. Enda hafa þeir jafnan komið því embætti drengilega til varnar þegar að því hefur verið sótt. Þeir hafa alltaf andmælt þeim sem reynt hafa að gera embættið og starfsmenn þess tortryggileg. Þá hafa þeir alltaf viljað að embættið fái nægar fjárveitingar til að sinna störfum sínum. Samfylkingarmönnum hefur einfaldlega alltaf verið verulega umhugað um trúverðugleika ríkislögreglustjóraembættisins. Ef ríkislögreglustjóri og starfsmenn hans hafa einhvers staðar átt víst skjól, þegar að þeim hefur verið sótt, þá er það hjá Samfylkingunni.

Nú hefur það hins vegar gerst að ráðuneyti löggæslumála, þar sem situr Ögmundur Jónasson, hefur farið yfir athugasemdir ríkisendurskoðunar og komist að þeirri niðurstöðu að þær hafi ekki verið á rökum reistar. Ómaklega hafi verið vegið að ríkislögreglustjóra. Vefþjóðviljinn hefur lítið sett sig inn í þetta mál, en hver og einn getur svarað fyrir sig hversu líklegt sé að Ögmundur Jónasson hafi að gamni sínu hafnað ásökunum sem þessum á hendur ríkislögreglustjóraembættinu, og geta menn þá einnig haft í huga að málið snerist um kaup á búnaði til að verjast óeirðaseggjum sem vinstrigrænir voru löngum veikir fyrir.