Fimmtudagur 20. október 2011

Vefþjóðviljinn 293. tbl. 15. árg.

Á dögunum var þess getið einhvers staðar ríkisstjórninni til hróss að skattbyrði ákveðins hóps einstaklinga hefði lækkað á valdatíð hennar.

Þetta minnti Vefþjóðviljann á að öruggasta leið fólks til að lækka skattbyrði sína er að lækka í tekjum. Því lægri tekjur – því lægri er skattbyrðin. Tekjuskattsbyrðin af 150 þúsund króna launum er til að mynda 6%. Byrðin af 300 þúsundum er 22% og skattbyrðin af 600 þúsundum er 30%. Bæði er þetta vegna persónufrádráttar og nú stighækkandi tekjuskattshlutfalls.

Þegar Stefán Ólafsson prófessor lýsti áhyggjum sínum af hækkandi skattbyrði á árunum áður en Jóhanna og Steingrímur tóku við stjórn landsins var hann fyrst og fremst að lýsa því hve tekjur manna hefðu hækkað skarpt. Það vandamál hefur vinstri stjórnin hins vegar tekist á við af einurð.

Á Bakka þarf til að mynda ekki að bera inn birtu í húfu lengur til að sjá að þar verður skattbyrðin leikandi létt.