Vefþjóðviljinn 291. tbl. 15. árg.
Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram stefnu í efnahagsmálum sem hann nefnir svo sniðuglega Plan B. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem flokkurinn er frumlegur þegar kemur að kynningu á stefnumálum sínum.
Fyrir þingkosningar 2003 birti flokkurinn skemmtilegar auglýsingar sem sannfærðu marga þá sem voru að kjósa í fyrsta sinn og ekki síður foreldra þeirra að Framsóknarflokkurinn myndi – fyrir hönd skattgreiðenda – útvega öllum sem vildu 90% lán til að kaupa sér íbúð.
Framsóknarflokkurinn bætti við sig fylgi í þessum kosningum en samstarfsflokkur hans í ríkisstjórn til átta ára, Sjálfstæðisflokkurinn, tapaði að sama skapi. Halldór Ásgrímsson gekk á lagið, ekki síst með stuðningi Samfylkingarinnar, sem vildi fá hann til samstarfs hvað sem það kostaði.
Nokkrum misserum síðar var Íbúðalánasjóður ríkisins ekki aðeins farinn að lána mönnum 90% þrátt fyrir mögl sjálfstæðismanna heldur varð Halldór forsætisráðherra. Það þótti samfylkingarmönnum ætíð til skammar, að forsætisráðherrann kæmi úr slíkum smáflokki. Það er ekki sama hver hrindir í framkvæmd.
Í Plani B lofa framsóknarmenn nú almennri skuldalækkun.
Svigrúm fjármálastofnana verði nýtt til almennrar leiðréttingar skulda heimilanna eftir því sem kostur er eins og Framsóknarflokkurinn hefur áður lagt til, eða með öðrum almennum aðgerðum sem stefna að sama marki.
Ætli þetta verði ekki vel þegið af þeim sem tóku 90% lánin sem framsóknarmenn höfðu forgöngu um?