Mánudagur 17. október 2011

Vefþjóðviljinn 290. tbl. 15. árg.

Eftirmál ráðningar forstjóra Bankasýslu ríkisins verða æ furðulegri. Af einhverjum ástæðum eru stjórnarþingmenn, og þá einkum Samfylkingarmenn, að fara yfir um vegna málsins. Í gærkvöldi fylgdi fréttastofa Ríkisútvarpsins á eftir með fyrstu frétt kvöldsins, þess efnis að ljóst væri að nýráðinn forstjóri myndi ekki taka til starfa. Fylgdu því vangaveltur fréttastofunnar hvaða leið væri einföldust að því marki, sem fréttastofan virtist engar athugasemdir gera við.

Í dag sagði svo þingmaður Samfylkingarinnar að málið snerist í raun um að hinn nýráðni forstjóri hefði komið að einkavæðingu bankanna fyrir tæpum áratug. Því hefði ekki mátt ráða hann.
Málið verður sífellt furðulega. Sú einkavæðing bankanna hefur verið vandlega rannsökuð af ríkisendurskoðun og hægur vandi er að kynna sér þá athugun. Samt vilja Samfylkingarmenn að allir þeir sem tengdust einkavæðingunni verði brennimerktir um alla tíð.

Að vísu mun þar undanskilinn Jón Sigurðsson sem einkavæddi Útvegsbankann og fór fyrir stjórn Fjármálaeftirlitsins í aðdraganda bankahrunsins. Jón hefði nú samt mátt vanda betur valið á kaupendum við einkavæðingu Útvegsbankans. Bankann létu þeir renna inn í Glitni þar sem varð fyrstur íslensku bankanna til að fara um koll. Það sjá vonandi allir að næst á eftir því að reka sjálfir banka eru stjórnmálamenn bestir í því að velja menn sem kunna bankarekstur. Það þýðir ekkert að láta banka í hendurnar á mönnum sem geta ekki rekið þá með hagnaði. Varla vilja menn að það sé tap á bankarekstri úti á hinum frjálsa markaði? Til hvers að hafa allt frjálst ef menn tapa svo peningum?

Sömu Samfylkingarmenn styðja svo sem fjármálaráðherra Steingrím J. Sigfússon sem á farsælum ráðherraferli hefur fyrir hönd ríkisins samið um eignaskiptingu á tveimur bönkum við ókunna aðila, líklega fyrst og fremst til hinna ægilegu erlendu vogunarsjóði en allt eins til þeirra sem áttu gömlu bankanna og þykja nú hafa verið alveg vonlausir bankamenn.

Þeir sem tala mest um að gömlu bankarnir hafi verið „settir í hendur manna sem kunnu ekkert með þá að fara“ hvar hafa þeir séð vottorð um að eigendur nýju bankanna kunni það?