Vefþjóðviljinn 289. tbl. 15. árg.
Sumir telja að bankahrunið 2008 hafi að miklu leyti komið til af því að útbreiddur hafi verið orðinn sá siður að fara einfaldlega sínu fram. Að lög, réttur og siðvenja hafi iðulega lotið í lægra haldi fyrir frekjunni og lönguninni til að ná sínu fram.
Vel má vera að sitthvað sé til í þessu. En hvernig hefur þá þróunin verið þau þrjú ár sem liðin eru frá bankahruni? Hafa menn þá ekki örugglega lært af því sem gerðist fyrir bankahrun, og ganga nú fram af miklu meiri hófsemd og virðingu?
Eftir bankahrun var ríkisstjórn knúin frá völdum. Rúður voru brotnar, logandi kyndlum kastað að opinberum byggingum, gróti og ýmsum viðbjóði rigndi yfir lögreglumenn þegar hundruð manna, ef ekki fleiri, töldu að þau mættu fara sínu fram til að koma sínum mönnum til valda. Fjölmiðlar létu sér þetta vel líka, einkum Ríkisútvarpið sem spilaði löngum með.
Þegar tekist hafði að hræða ríkisstjórnina frá völdum hljóp forseti Íslands til, myndaði minnihlutastjórn án þess að hafa einu sinni reynt að mynda meirihlutastjórn eins og allar stjórnskipunarhefðir þó segja. Gerði forseti til dæmis ekkert með tillögur sitjandi forsætisráðherra í þeim efnum, sem einnig er fáheyrt. Fjölmiðlar og álitsgjafar létu sér vel líka.
Þegar minnihlutastjórnin hafði náð völdum var það hennar fyrsta verk að leggja fram lagafrumvarp sem eingöngu var til þess hugsað að losna við tiltekinn mann úr embætti. Fjölmiðlar og álitsgjafar létu sér slíka notkun löggjafarvaldsins vel líka. Ríkissjónvarpið fékk næstum taugaáfall kvöldið sem þessi aðgerð hikstaði við það þingnefnd vildi fá að skoða málið.
Þegar þessu marki var náð, setti minnihlutastjórnin erlendan ríkisborgara í embættið sem búið var að rýma. Stjórnarskráin bannar þó sérstaklega að erlendir ríkisborgarar séu skipaðir í íslensk embætti. Fjölmiðlar létu sér það vel líka. Morgunblaðið skrifaði um það í leiðara að nú mættu menn ekki hengja sig í „lagakróka“, og var þar átt við stjórnarskrána.
Næsta skref minnihlutastjórnarinnar, sem þá hafði aðeins setið við völd í rúman mánuð, var að reyna að nýta sér upplausnarástandið til að skipta um stjórnarskrá í landinu. Þeirri atlögu var þá hrundið tímabundið, vegna þess að þá voru enn á þingi fulltrúar þeirrar kynslóðar sjálfstæðismanna sem telur að það megi berjast við vinstrimenn. Undir forystu Björns Bjarnasonar og Sturlu Böðvarssonar, og Birgis Ármannssonar úr hópi yngri þingmanna, tókst að verja grundvallarstjórnskipunina. Ekki er víst að svo vel takist til næst, þegar Sjálfstæðisflokknum verður stýrt af því fólki sem vill forðast „átakastjórnmál“.
Í kosningabaráttunni voru vinstrigrænir einarðir andstæðingar inngöngu í Evrópusambandið. Vegna þess töldu margir óhætt að „gefa vinstriflokkunum tækifæri“, því vinstrigrænir myndu tryggja það að ekki yrði sótt um aðild að Evrópusambandinu. Kosið var í apríl, vinstristjórnin var mynduð í maí og í júní var sótt um aðild.
Vinstrigrænir höfðu í stjórnarandstöðu verið eindregnir andstæðingar þess að látið yrði undan kröfum Breta og Hollendinga í Icesave-málinu. Sína síðustu og hörðustu grein gegn því skrifaði Steingrímur J. Sigfússon í Morgunblaðið viku áður en hann varð fjármálaráðherra. Varla þarf að rekja þá sögu sérstaklega, en álitsgjafarnir hafa lítið við framgöngu stjórnvalda þar að athuga, frekar en víðast annars staðar.
Ríkisstjórnin tapaði ekki einni heldur tveimur allsherjaratkvæðagreiðslum um Icesave-málið sitt. Samt situr hún. Það hvarflar hreinlega ekki að henni að biðjast lausnar þrátt fyrir að hafa tvívegis verið gerð afturreka með slíkt mál.
Forsætisráðherra knúði fram kosningu til „stjórnlagaþings“. Á kosningunni voru augljósir mjög verulegir gallar, sem flestir sáu að voru til þess fallnir að hafa áhrif á niðurstöðurnar. Hæstiréttur landsins átti engan annan kost en að ógilda þær. Fjölmiðlar og álitsgjafar réðust þá að Hæstarétti en ekki stjórnvöldunum sem stóðu svo illa að kosningunni. Í viðtalsþættina voru fengnir menn til að flytja einræður gegn niðurstöðu Hæstaréttar en enginn til að andmæla þeim.
Þegar æðsti dómstóll landsins hefur, lögum samkvæmt, ógilt kosninguna er ákveðið að hafa ákvörðun réttarins að engu. Liðið sem ekki var kosið er bara samt sett í nefnd sem að öllu leyti nema nafninu er sama stjórnlagaþingið og ógilda kosningin var til. Með öðrum orðum, niðurstöðu Hæstaréttar er hent út um gluggann, en liðið með ógilda kosninguna fær samt sæti, með þeirri breytingu að eini fulltrúinn sem hafði manndóm til að taka ekki þátt í skömminni var ekki með, en í staðinn fenginn einhver sem til var í það. Prófessor Þráinn Eggertsson kallaði þetta réttilega hrakval. Álitsgjafarnir létu sér þetta hins vegar vel líka.
Við setningu alþingis mætir hópur manna og kastar eggjum og ýmsum öðrum matvælum að alþingismönnum. Enginn virðist bera ábyrgð á því. Rétt eins og þegar rúður voru brotnar og múrsteinum og mannaúrgangi var kastað í lögregluþjóna, þá ber enginn ábyrgð. Fjölmiðlarog álitsgjafar virðast engar áhyggjur hafa af því. Eins og venjulega er aðeins talað um „mótmælendur“. Á því hefur síðustu þrjú árin aðeins einu sinni verið gerð undantekning. Þegar menn eyðilögðu kapal í eigu Stöðvar 2 breyttust þeir á andartaki úr mótmælendum í skemmdarvarga. Síðan hafa þeir gætt sín betur og ráðast bara á alþingishúsið, lögregluna og dómkirkjuna og þá eru allir sáttir.
Hér hafa aðeins verið nefnd örfá atriði á árunum frá bankahruni. Menn geta velt fyrir sér hvort þau séu til marks um að menn hafi „lært af bankahruninu“. Ótalmörg önnur mætti nefna, bæði grafalvarleg eins og þegar þingmenn ákæra pólitískan andstæðing en sleppa samherja, eða hláleg eins og þegar stjórnendur umræðuþátta fylla þá af skoðanabræðrum sínum. Og hvernig eru kröfugerðir utan þings? Er þar uppi hávær krafa um að orð skuli standa og samningar halda? Eða vilja menn kannski frekar fá „leiðréttingu“, og eru tilbúnir að rökstyðja þá kröfu nánar með pönnum og olíutunnum?
Sumir segja að „ekkert hafi breyst frá bankahruni“. Er það svo víst? Getur kannski verið að eftir bankahrunið hafi sumir sannfærst um að nú hafi þeir fengið frítt spil og að enginn sé eftir sem vilji eða þori að standa uppi í hárinu á þeim? Getur verið, að það sé frekar eftir bankahrunið en fyrir það, sem menn vaða um allt á skítugum skónum?