Laugardagur 15. október 2011

Vefþjóðviljinn 288. tbl. 15. árg.

Það gerist stundum, ekki síst er líða fer að kosningum, að ráðherrar og bæjarstjórar færa stofnunum sem undir þá heyra „gjafir“. Eru ýmis tilefni nýtt í þessum tilgangi. Háskóli Íslands átti til að mynda aldar afmæli nýlega og þar var mætt Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra. Færði hún skólanum þúsund milljónir króna „að gjöf“ við dúndrandi klapp afmælisgesta.

Síðan gerðist nokkuð óvenjulegt. Fréttakona Ríkissjónvarpsins spurði Jóhönnu hvaðan þessar þúsund milljónir ættu að koma. Jóhanna gat ekki svarað því en hughreysti áhorfendur með því að þau í ríkisstjórninni myndu „örugglega finna“ þær. Ríkissjóður er rekinn með tugmilljarða halla. Ef að Jóhanna finnur örugglega milljarð króna þar sem minna en ekkert er til þá hefur margur nemandinn verið fylltur af ranghugmyndum um eðli samlagningar og frádráttar í kennslustundum.

Það má líka velta öðru fyrir sér í þessu samhengi. Hvað kallast önnur framlög skattgreiðenda til háskólans ef þessar þúsund milljónir eru „gjöf“? Hver er munurinn?

Að vísu kom í ljós að sá munur er á gjöfinni og öðrum framlögum ríkisins til háskólans að fyrir framlögunum er heimild í fjárlögum frá Alþingi en ekki fyrir gjöfinni. Jóhanna gaf því ekki aðeins þúsund milljónir sem ekki eru til heldur skorti hana lagaheimild til þess.

Þegar þingmenn Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd gerðu athugasemd við þetta verklag var Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra snöggur til svars: „Og reyndar undrar mig að menn skuli reyna að finna neikvæðan snúning á þessu góða máli. Og ég spyr bara og lýsi eftir því, bíddu ætlar einhver að vera á móti þessu?“

Látum yfirlætið í manninum eiga sig. En er hann ekki að viðurkenna að þar sem ríkisstjórnin hafi litið svo á að gjöfin myndi falla í kramið í þinginu hafi í raun verið óþarft að leita eftir heimild þess?