Vefþjóðviljinn 287. tbl. 15. árg.
Atlaga vinstristjórnarinnar að sjávarútveginum segir mikla sögu um hugarfarið í þingflokkum stjórnarflokkanna. Margar sögur eiginlega.
Í Morgunblaðinu í morgun var haft eftir Steingrími J. Sigfússyni að ef hann réði einn, tæki aðeins þrjár vikur ljúka deilum um sjávarútvegsmálin. „Efniviðurinn“ í þá lausn væri í tillögum svokallaðrar sáttanefndar.
Eins og menn vita ætlar ríkisstjórnin ekki að fara að tillögum þeirrar sáttanefndar. Vinstrigrænir hlýða Samfylkingunni þar eins og annars staðar, hvað svo sem Steingrímur J. Sigfússon segir úti í bæ.
Þá vita menn líka, að sú verulega óvissa sem núverandi stjórnarmeirihluti hefur skapað um framtíð sjávarútvegsins hefur orðið til þess að í sjávarútvegi halda menn að sér höndum eins og þeir geta og fjárfesta sem minnst. Hefur það veruleg áhrif, ekki aðeins á sjávarútvegsfyrirtækin heldur á ótal önnur fyrirtæki og starfsfólk sem á viðskipti við sjávarútvegsfyrirtæki eða tengist sjávarútveginum. Sjávarþorp um allt land finna einnig fyrir þessu.
Ráðherrar láta iðulega eins og þeir glími við gríðarlega efnahagserfiðleika og vinni þar þrekvirki á hverjum degi. Hvers vegna í ósköpunum geta þeir ekki aflétt óvissunni í sjávarútvegi og tilkynnt einfaldlega að þeir muni ekki ráðast til atlögu við þessa undirstöðuatvinnugrein á kjörtímabilinu?
Myndi ekki hver einasta sómakær ríkisstjórn, sem hefði verið treyst fyrir landinu á efnahagslegum umbrotatímum, átta sig á því að öflugur sjávarútvegur er algerlega nauðsynlegur íslensku efnahagslífi við núverandi aðstæður? Myndi nokkurri sómakærri ríkisstjórn detta í hug að geta ekki veitt undirstöðuatvinnuvegi landsins nokkurra ára grið á þeim tíma þegar hann knýr áfram verðmætasköpun í landinu?
Nei, engri sómakærri ríkisstjórn.
En vinstristjórnin talar alltaf um að nú hafi hún „sögulegt tækifæri“ til að koma kreddum sínum í lög.
Og hvers vegna er tækifærið svo „sögulegt“? Hvers vegna má ekki bíða fram á næsta kjörtímabil?
Vegna þess að á stjórnarheimilinu dettur engum í hug að kjósendur fari aftur jafn illa að ráði sínu og vorið 2009.
Þess vegna liggur nú lífið á. Þess vegna verður að ráðast gegn sjávarútveginum. Þess vegna skiptir engu þótt geta hans til að knýja efnahagslífið áfram verði stórsköðuð.
Ekkert skiptir stjórnarherrana máli annað en eigin kreddur.