278. tbl. 15. árg.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins flutti að mörgu leyti ágæta ræðu við umræður um stefnuræðu forsætisráðherra á mánudagskvöldið. Hann vakti athygli á því að engin ríkisstjórn Íslands hefði aukið ríkisútgjöld meira en sú sem tók við völdum eftir þingkosningar vorið 2007. Hann benti jafnframt á að verstu afleiðingar bankahrunsins hefðu verið vegna galla í regluverki hins evrópska efnahagssvæðis.
Er það kreppa ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks þar sem núverandi forsætisráðherra var í sérstökum aðalráðherrahópi um efnahagsmál? Ríkisstjórnar sem jók ríkisútgjöld meira en dæmi eru um í Íslandssögunni í hápunkti þenslunnar og brást ekki við hættuástandi sem blasti við, eins og frægt er orðið í níu bindum?
Er það kreppa ríkisstjórnanna þar á undan, eins og sumir vilja halda fram, vegna þess að þær komu ekki í veg fyrir að bankar nýttu sér gallaðar reglur evrópska efnahagssvæðisins til að byggja spilaborgir?
En svo bætti Sigmundur við
Hrunið var afleiðing af misnotkun gallaðrar frjálshyggju en núna erum við stödd í sósíalistakreppu.
Ekki er víst að allir taki undir það með formanni Framsóknarflokksins að regluverk Evrópusambandsins, meðal annars um innstæðutryggingar, eða mesta aukning ríkisútgjalda í sögunni, teljist frjálshyggja, jafnvel þótt það sé nefnt gölluð frjálshyggja.
Gæti hugsast að allir sex viðskiptaráðherrarnir frá EES-samningi hafi haft gallaða frjálshyggju sem meginstefnu? Þrír frá Alþýðflokki og Samfylkingu og þrír úr Framsóknarflokki.