Ý msir, nokkrir hið minnsta, mæltust til þess haustið 2008 að hlé yrði gert á byggingu útrásarhallarinnar við Reykjavíkurhöfn. Að minnsta kosti á meðan menn næðu áttum eftir að fjármálakerfi landsins gufaði upp. Þáverandi menntamálaráðherra og borgarstjóri voru á öðru máli og haldið var áfram að ausa milljöðrum úr tómum sjóðum ríkis og borgar í höllina. Eitt þeirra verka sem ólokið var haustið 2008 var uppsetning á gríðarlegum glerhjúpi sem upphaflega mun hafa verið borinn upp til samþykktar á árshátíð félags gluggaþvottamanna.
Í nýjasta tölublaði Tímarits VM er vikið að vinnubrögðunum við hjúpinn í grein sem ber yfirskriftina „Hrákasmíði í Hörpu. Nú þegar er farið að bera á ryði og rakamyndun“. Með greininni fylgja nokkrar myndir af fíneríinu. Þar á meðal þessi sem sýnir að þótt bitarnir í púslinu passi ekki saman er engin ástæða til að gefast upp.
Tímarit VM ræðir við arkitektinn Örnólf Hall en hann og Guðmundur Kr. Guðmundsson hafa fylgst náið með byggingunni af áhuga sínum.
Ég og Guðmundur Kr. Guðmundsson arkitekt höfum mikla reynslu af stórum opinberum framkvæmdum og höfum slæma reynslu af ryði í stáli í því sambandi. Í byrjun mars 2010 var Guðmundi boðið að skoða bygginguna. Þá sá hann hvernig stálstrendingarnir voru farnir að ryðga og hann var fljótur að spyrja hvort menn ætluðu virkilega að setja þetta ryðgaða drasl upp. Því var svarað játandi og þetta væri ekkert alvarlegt. Ég fylgdist svo náið með norðurhliðinni en verkamennirnir austurlensku voru allan aprílmánuðinn að atast í ryði í gluggarömmunum. Ég hélt svo áfram að taka myndir af framkvæmdunum. Meðal annars náði ég myndum af því þegar þeir settu fyrri suðurvegginn upp, þann sem Guðmundur hafði séð útataðan í ryði, sem síðan reyndist vera ónýtur. Hann var þá rifinn niður og nýr suðurveggur settur upp, en sá veggur er í dag einnig ryðgaður á mörgum stöðum. |
Örnólfur óttast jafnfram að sílíkonþéttingar í glerhjúpnum séu þegar farnar að láta undan. „Mér hrýs hugur við því að barnabörnin mín, sem skattborgarar í framtíðinni, eigi eftir að borga endalaust viðhald á bákninu“, segir Örnólfur að lokum.
S amkvæmt tilkynningu frá Icelandair Group hefur félagið gengið frá lántöku hjá Deutsche Bank. Lánsfjárhæðin nemur 18 milljónum bandaríkjadala. Lánið er nýtt til endurfjármögnunar á óhagstæðari lánum sem hafa verið greidd upp. Bankamennirnir hjá Deutsche Bank hafa alveg gleymt að taka tillit til þess að Steingrímur og Jóhanna voru búin að tilkynna að íslensk fyrirtæki kæmu alls staðar að lokuðum dyrum ef ríkisábyrgð á Icesave yrði felld.