Fimmtudagur 6. október 2011

279. tbl. 15. árg.

Í gær bárust fréttir af því að einhverjir ónefndir lánadrottnar Álftaness myndu fá 1 milljarð króna úr vösum almennra skattgreiðenda á Íslandi. Ríkisstjórnin ætlar að seilast í vasa allra Íslendinga eftir þessum milljarði og afhenda þeim glönnum sem lánuðu sveitarfélaginu langt umfram greiðslugetu þess.

Hvers vegna eiga íbúar á Seltjarnarnesi, Vopnafirði og Garðabæ að fá reikning fyrir afglöpum einhverra fjármálastofnana á Álftanesi?

Fjölmiðlar sögðu hins vegar frá þessu í gær eins og um væri að ræða sakleysislegan styrk úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga til veslings íbúanna á Álftanesi. Enginn þeirra nefndi þau fjármálafyrirtæki, hvað þá á nafn, sem í raun munu njóta þessa ríkisstyrks. Þau voru þvert á móti talin mikil fórnarlömb sem verði að gefa eitthvað eftir sínum glórulausu lánveitingum. Nema hvað?

Hér hljóta erlendir kröfuhafar að vera á ferðinni. Steingrímur J. Sigfússon verður alltaf undirleitur og laus í hnjánum þegar þeir koma með sínu fáránlegu kröfur. Þegar svo við bætist að vinstri grænir voru í forystu fyrir því að drekkja sveitarfélaginu í skuldum má segja að hann hafi sérstaka ástæðu til að henda milljarði króna í að “leysa málið farsællega” eins og hann nefnir það alltaf þegar hann féflettir almenning fyrir einhvern bankann, sparisjóðinn, tryggingafélagið og nú sveitarfélagið.

En lífið á Álftanesi hefur ekki verið tómur dans á rósum. Eins og gefur að skilja hefur öll þjónusta þar verið skorin inn að beini, eins og það nefnist jafnan hjá hinu opinbera þegar ekki er hægt að auka eyðslu um 10 – 15% á ári. Til marks um sparnaðinn má nefna að aðeins ein nýleg frétt er á vef bæjarins. Þar segir frá því skelfingarástandi að ekki verði hægt að fara í nema tvo heita potta og innilaugina um helgina. Útilaugin, rennibrautin, öldulaugin, vaðlaugin og súkkulaðigosbrunnurinn þarfnast viðgerðar. Og verða í viðgerð. Ekki síðar en núna. Beðist er velvirðingar á þessum ósköpum.