F rá því var skýrt í vikunni að hinar ofstækislausu þingkonur vinstrimanna, Ólína Þorvarðardóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir, hefðu nú komist að þeirri niðurstöðu að gerbreyta þyrfti nýlegu stjórnarfrumvarpi um breytingar á fiskveiðistjórnuninni. Buðust þær jafnfram til að taka að sér sjálfar að semja nýtt frumvarp „í umboði ráðherra“.
Frá þessu er sagt eins og ekkert sé. Það er eins og fréttamönnum þyki bara sjálfsagt mál að núverandi stjórnarmeirihluti á þingi hafi sett undirstöðuatvinnuveg landsmanna í algert uppnám með óheyrilega illa unnu frumvarpi. Einu sinni átti nú að keyra frumvarpið í gegn á síðasta þingi. Nú uppgötva menn daginn fyrir setningu þessa þings að frumvarpið er ómögulegt. Fjöldi manns þurfti að leggja á sig mikla vinnu við að fara yfir tillögurnar, reikna út afleiðingarnar og reyna að koma viti fyrir þingmenn sem yfirleitt svara með skætingi.
Frumvarpið um gerbreytingu á fiskveiðistjórnun á Íslandsmiðum er enn eitt dæmið um afleiðingar þess að ofstækismenn og ákafaþrasarar komust til valda í landinu, þegar skyndilega var efnt til þingkosninga beint ofan í efnahagsumbrot. Hlutdrægir fjölmiðlar, ákafir álitsgjafar og aðrir róttækir baráttumenn ranghugmynda höfðu þá náð að skapa jarðveg sem versti þingmeirihluti lýðveldissögunnar spratt úr. Ein afleiðingin er vísvitandi aðför að rekstrargrundvelli undirstöðuatvinnuvegar landsins, því varla gat annar eins þingmeirihluti látið sér nægja að ráðast gegn stjórnarskránni eða reyna að koma fullveldi Íslands úr landi.
B irgir Jónsson lét í vikunni af starfi sem forstjóri Iceland Express og hafði þá setið á valdastóli í tíu daga. Það þykir Runólfi Ágústssyni, fyrrverandi umboðsmanni skuldara, hartnær sjúkleg þráseta í embætti.