Fimmtudagur 29. september 2011

272. tbl. 15. árg.

M ánuðina eftir fall bankanna 2008 var mörgum heitt í hamsi. Öllum mátti vera ljóst að útifundir í miðbænum í slíku ástandi myndu leiða til skemmdarverka og ofbeldis. Það kom enda á daginn og er óhætt að segja að aldrei hafi annars eins lýður fengið að vaða uppi í miðborg Reykjavíkur. Stórmennin felldu jafnvel jólatréð á Austurvelli  og vörpuðu því á bálið við þinghúsið.

Engu að síður var boðað til slíkra æsingafunda, aftur og aftur, með einstæðri aðstoð Ríkisútvarpsins. Sérstaka velþóknun á slíkum samkomum höfðu vinstri grænir sem tóku þátt í skipulagningu með ýmsum hætti. En vinstri grænir réðu ekki úrslitum um hvaða áhrif skrílslætin hefðu á lýðræðislega kjörna ríkisstjórn með mikinn meirihluta. Þegar leikurinn barst að fundi á vegum Samfylkingarinnar í janúar 2009 fór forysta hennar endanlega á taugum og lét undan ofbeldinu með því að leiða vinstri græna til valda nokkrum dögum síðar. Nokkur hundruð ofbeldismönnum tókst einfaldlega að skipta um ríkisstjórn í landinu.

En byltingin etur stundum börnin sín. Nú er svo komið að þeir sem komust til valda í skjóli mótmælafunda sitja skjálfandi á beinunum og reyna að upphugsa ráð til að vera farnir „fyrr inn í helgina“ þegar mótmælendur drífur að á Austurvöll við þingsetningu á laugardaginn kemur.

S tjórnarmeirihlutinn á alþingi hyggst nú fá samþykkt að Ísland, eitt Vesturevrópuríkja, viðurkenni landsvæði palestínumanna sem fullvalda ríki. Svo einhliða hefur fréttaflutningur verið af málefnum Mið-Austurlanda undanfarin ár, og svo mikill pólitískur rétttrúnaður hefur verið á þingi síðustu misseri, að menn gátu hreinlega búist við því að Alþingi myndi samhljóða og umrææðulaust samþykkja að viðurkenna ríki PLO og Hamas sem fullgilt.

En Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins varaði við slíku skrefi, sem ekkert vestrænt ríki hefur stigið. Fyrir skömmu tók Bjarni einnig með afgerandi hætti af skarið í Evrópumálum. Hann er nú eindreginn í þeirri afstöðu að afturkalla eigi umsókn um inngöngu Íslands í bandalagið.

Er nú líka orðið auðheyrt á andstæðingum Sjálfstæðisflokksins, einkum krötum í öllum flokkum, að þeir eru farnir að hafa áhyggjur af þróuninni og vilja nú helst fá nýjan formann. Þetta eru sömu aðilar og fyrir hálfu ári lofsungu Bjarna hástöfum fyrir afstöðu hans í Icesave-málinu. Nú telja þeir hann hins vegar ekki nógu leiðitaman lengur.