Laugardagur 1. október 2011

274. tbl. 15. árg.

Á hugamenn um einfalt skattkerfi gleðjast þessa dagana yfir þeim ummælum Barack Obama forseta Bandaríkjanna að “milljarðamæringar eigi að greiða sama hlutfall í skatt og húsverðir”. Vestanhafs telja menn þetta jafnvel til marks um að draumurinn um flatan skatt gæti orðið að veruleika. Með flötum skatti, til að mynda 15% skatti á allar tekjur, er gert ráð fyrir að allir afslættir, frítekjumörk og frádráttarmöguleikar, séu felldir niður.

Í Bandaríkjunum eru miklu meiri og fjölbreyttari frádráttarmöguleikar en hér á landi. Í grein eftir Stephen Moore í The Wall Street Journal í gær er því haldið fram að þótt hæsta skattþrepið hafi 91% á sjöunda áratugnum, og um 70% á áttunda áratugnum greiði efnafólk hærri hluta heildarskattsins nú með “aðeins” 35% skatti. Ástæðan er sú að efnafólk hefur miklu betri tök en hinn almenni maður á því að nýta sér alls kyns undankomuleiðir í flóknum skattkerfum. Það hefur efni á að leita ráða hjá endurskoðendum og lögfræðingum.

Herman Cain, einn af frambjóðendum í forvali Repúblíkana vegna forsetakosninga, hefur lagt fram tillögu um flatan skatt sem hann nefnir 9-9-9 og byggir á 9% tekjuskatti einstaklinga án nokkurs frádráttar, 9% tekjuskatti fyrirtækja og 9% söluskatti á landsvísu.