Laugardagur 24. september 2011

267. tbl. 15. árg.

Á dögunum kom upp sérstætt mál á Seltjarnarnesi. Svo virtist sem húsnæði sem ríkissjóður er með á leigu til ársins 7035 myndi standa autt eftir að embætti landlæknis flutti til Reykjavíkur. Þetta hefði verið algert met og gegn því alkunna lögmáli að ríkisstofnanir fylli hratt og vel út í það húsnæði sem ríkið hefur til ráðstöfunar og helst ríflega það.

En þótt jafnvel sjálf afstæðiskenningin hafi farið örlítið halloka nýlega fyrir fiseindum sem þykir gaman að láta ljósið elta sig í Svisslandi er sem fyrr hægt að treysta á lögmálið um útþenslu ríkisbáknsins. Auðvitað gat það ekki staðist svo mánuðum skipti að húsnæði hins opinbera væri ekki fyllt af mikilvægum embættismönum. Kreppan er bara á hinum almenna markaði.

Í frétt Morgunblaðsins í morgun kemur nefnilega fram að þrír afleggjarar af Alþingi, tvær rannsóknanefndir og saksóknari, muni fylla út í plássið á Seltjarnarnesi. Fram kemur að Alþingi muni leigja húsnæðið af embætti landlæknis. Er það í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um sjálfbærni og hringrás lífríkisins. Alþingi leggur landlækni til fé sem landlæknir notar til að leigja húsnæði sem Alþingi getur þá leigt af honum. Jafnframt er tekið skýrt fram að þetta sé nú bara tímabundið en ef rannsóknanefndirnar þrjóti verkefni megi hæglega stofna nýjar nefndir til að leysa þær af.