H austhefti tímaritsins Þjóðmála er komið út og kennir þar sem fyrr margra grasa. Á tímum vinstristjórnar, einlitra álitsgjafa og stórfelldrar slagsíðu Ríkisútvarpsins, er útgáfa vandaðs tímarits um þjóðmál, sem gerir borgaralegum viðhorfum hátt undir höfði, ákaflega mikilvæg. Full ástæða er til að hvetja menn til að gerast kaupendur Þjóðmála, hvort sem er með fastri áskrift eða í lausasölu. Hvort tveggja má gera í Bóksölu Andríkis.
Í haustheftið skrifa meðal annarra Helgi Áss Grétarsson lögfræðingur, sem fjallar ýtarlega um hið svokallaða „stóra kvótafrumvarp“ sjávarútvegsráðherra, en Helgi Áss hefur unnið mjög að rannsóknum á sviði sjávarútvegsmála. Kemst hann meðal annars að þeirri niðurstöðu að ýmis ákvæði frumvarpsins, metin ein og sér eða heildstætt, kunni að brjóta gegn grunnreglum sjálfrar stjórnskipunarinnar. En enginn þarf að vísu að hafa áhyggjur af því að innan vinstrimeirihlutans á Alþingi hafi nokkur maður áhyggjur af slíku.
Ungur og efnilegur maður, Kristinn Ingi Jónsson, skrifar eftirtektarverða grein um tvö andlit Jóhönnu Sigurðardóttur. Félagsmálaráðherrann sem strunsaði út af ríkisstjórnarfundum ef hún fékk ekki allt sitt fram – og forsætisráðherrann sem kallar samráðherra sína villiketti ef þeir hlýða ekki möglunarlaust. Stjórnarandstöðuþingmanninn sem lagði fram allt að fjórar skriflegar fyrirspurnir til ráðherra í viku hverri – og forsætisráðherrann sem svarar fyrirspurnum villandi, seint og illa.
Fjölmargt annað efni er í haustheftinu. Má sérstaklega nefna þar áhugaverða úttekt á umræðunni sem varð eftir hryðjuverkin í Noregi í júlí, bæði í Danmörku og Íslandi; Lýður Þór Þorgeirsson verkfræðingur minnir á að hagsæld er byggð á eignarrétti, en nú er mikilvægara en oft áður að benda á þetta, enda er svo komið, eins og Lýður segir, að „fyrir mörgum snúast stjórnmál um sífellda baráttu um eignir annarra og sporslur frá hinu opinbera. Slíkum er fátt heilagt í hagsmunabaráttu sinni. Siðferðisreglan um að virða eignir annarra virðist jafnvel ekki stöðva virta fræðimenn og álitsgjafa sem stinga upp á alls kyns aðferðum tl að flytja eigur einhverra með pennastriki og valdbeitingu hins opinbera.“
Nokkrir sagnfræðingar eiga grein í Þjóðmálum, þar á meðal Stefán Gunnar Sveinsson sem segir frá afstöðu Sósíalistaflokksins til Vesturveldanna á fyrsta skeiði heimsstyrjaldarinnar síðustu og Jón Þ. Þór sem skrifar um hinn afkastamikla en bráðskemmtilega kollega sinn, Paul Johnson. Þeir sem hafa gaman af lifandi og skemmtilegum sagnfræðibókum ættu að kynna sér einhverjar af ótrúlega mörgum bókum Johnsons.