Þ ví er stöðugt haldið fram að konur tefli síður djarft í atvinnurekstri en karlar, séu ekki eins áhættusæknar, eins og það er kallað. Það kann að vera að einhverjum hafi tekist að mæla þetta með einhverju undratæki. Ekki hefur hins vegar tekist að mæla, svo vitað sé, að þessi meinta hegðun kvenna sé annað en þeirra eigin ákvörðun. Mega konur þá ekki vera í friði með þá stefnu sína að hafa jafnan vaðið fyrir neðan sig í atvinnurekstri? Nei, nú hafa tvö ráðuneyti, ríkisbanki og Reykjavíkurborg ákveðið að grípa til viðeigenda ráðstafana gegn þessari þjóðfélagslegu hættulegu varfærni kvenna.
Í tilkynningu frá velferðarráðherra segir:
Þann 8. mars sl. var undirritað samkomulag um endurreisn Lánatryggingasjóðs kvenna, en hann var starfræktur á árunum 1998-2003. Verkefnið er liður í viðleitni stjórnvalda til að efla atvinnulíf og hvetja til nýsköpunar á Íslandi. Ennfremur hafa rannsóknir sýnt að konur eru síður tilbúnar að veðsetja eignir sínar en karlar og hefur það oft staðið verkefnum kvenna fyrir þrifum. Sjóðurinn er í eigu velferðarráðuneytis, iðnaðarráðuneytis og Reykjavíkurborgar og er verkefnið til fjögurra ára og lýkur þann 31.desember 2014. |
Já hvílík hneisa, konur eru ekki jafn tilbúnar til að veðsetja íbúðina sína fyrir nýsköpunarverkefni. Hér hlaut því ríkisvaldið að koma til skjalanna og leggja agn fyrir konur svo þær ani út í verkefni sem þær hefðu annars ekki gert.
Þeir sem ætla með þessum hætti að reyna að koma vitinu fyrir kvenþjóðina hafa þó ef rétt er munað allir tekið undir þá kenningu að fyrir hrun bankanna hafi verið alltof mikill ungæðisháttur og áhættusækni í íslensku atvinnulífi og gott ef það hefur ekki einmitt verið nefnt sem skýring á fífldirfskunni að fáar konur hafi verið með í ráðum.
Að sjálfsögðu er þetta átak ríkisvaldsins gegn því þjóðfélagsmeini að konur veðsetji ekki íbúðina sína vegna nýsköpunarverkefna undir flaggi jafnréttismála. Konur og karla skulu sko njóta jafnréttis í hvívetna. Hver gæti orðað það betur en velferðarráðherrann í fyrrnefndri tilkynningu.
Eingöngu verkefni/fyrirtæki sem eru í meirihlutaeigu konu/kvenna og undir stjórn konu/kvenna geta sótt um tryggingu og gerð er krafa um að í verkefninu felist nýsköpun/nýnæmi að einhverju marki. Einnig er krafa um að líkur séu verulegar á að verkefnið/fyrirtækið leiði til aukinnar atvinnusköpunar kvenna. |
Til að ná markmiðinu um jafnrétti kynjanna þykir nauðsynlegt að hlaupa eins langt frá því er frekast er unnt.