Helgarsprokið 28. ágúst 2011

240. tbl. 15. árg.

E in af nýju eftirlitsstofnununum sem komu til skjalanna á frjálshyggjuárunum svonefndu er samkeppniseftirlitið sem áður hét samkeppnisstofnun. Hér hefur stundum verið minnst á hreint ótrúlega þrautseigju stofnunarinnar við að kanna verðmerkingar í sölubúðum og sektir sem hún leggur á fyrirtæki – og þar með framtíðar viðskiptavini þeirra? – fari þau ekki að reglum um málið, sem settar voru á frjálshyggjuárunum þegar menn afnámu allar reglur eins og menn telja sig muna.

Ásgeir Ingvarsson lagði út af þessu í grein í Viðskiptablaði Morgunblaðsins á fimmtudaginn.

11. ágúst birtu fjölmiðlar fréttatilkynningu um Íslendingadag í Tallinn sem fram skyldi fara 21. sama mánaðar. Þar var sagt frá hvert tilefnið væri og að hjörð fyrrverandi og núverandi embættismanna myndi heiðra Tallinnbúa með nærveru sinni. Ekki nóg með það heldur myndi að auki mæta á staðinn fríður hópur íslenskra hljómsveita, kóra og safn listamanna af öllum toga. Eitt vantaði þó í fréttirnar: verðmiðann.

Það er regla frekar en undantekning að í tilkynningar um alls kyns verkefni, uppátæki, ráðstefnur og vinaheimsóknir hins opinbera vanti að tekið sé fram hvað herlegheitin kosta. Skattgreiðendur fá ekki að vita hvað þeir eru að punga út fyrir flugmiðum, hótelgistingu, risnu og vinnutíma heilu þingnefndanna eða leikflokkanna og geta fyrir vikið með engu móti áttað sig á hvort peningunum hefur verið vel eða illa varið.

Já hvað kostaði gillið? Á nýja Íslandi opinnar stjórnsýslu, gagnsæis og alls uppi á borðum hlýtur að vera hægur vandi að fá upplýsingar um slíkt. Eða hvað? Ásgeir gerði tilraun til þess.

Það tók um tíu daga fyrir mig að afla sæmilegra upplýsinga um kostnað hinna og þessa stofnana við Íslendingadaginn. Enginn hafði heildartöluna á hreinu því fjöldi smárra og stórra battería lagði sitt af mörkum. Í sumum tilvikum þurfti að draga brúkanlegar tölur upp úr fólki með töngum, svörin loðin og óljós og snúið að reikna samspil mótframlaga og fjárveitinga á milli aðila. Þegar allt er talið sýnist mér að kostnaður íslenskra skattgreiðenda af Íslendingadegi Eistlendinga hafi verið að lágmarki 8,3 milljónir króna. Heildarkostnaður við daginn á að hafa verið á milli 10-20 milljónir og stjórnvöld í Eistlandi greiða reikninginn fyrir því sem eftir stendur. Lesendur verða sjálfir að dæma um hvort peningunum var vel varið, núna þegar þeir vita upphæðina. Fyrir mitt leyti get ég sagt þetta: ef ég ræki heimili sem væri í samskonar kröggum og ríkissjóður Íslands þá myndi ég ekki halda neinar veislur, hvað þá í annarra manna görðum.

 Gleymum því ekki heldur að svona tilkynningar dynja á okkur hvern einasta dag og nær alltaf án verðmiða. Einn daginn er landbúnaðarráðherra ómissandi á hestasýningu í Þýskalandi, næsta dag þarf sendinefnd að funda um umhverfisvernd á einhverri paradísareyjunni við miðbaug. Þetta er sannkallað þotulið sem vinnur hjá hinu opinbera. Nú getur vel verið að þessum peningum sé fjarska vel varið. Að vísu berast fáar fréttir af árangri og ávinningi vegna þessara ferða.

Það er þá kannski eitthvað til í því sem verðmiðaeftirlit samkeppniseftirlitsins byggir allt sit streð á.

Sagt er að þeir séu hræddastir við að verðmerkja sem vilja pranga upp á fólk lélegri vöru á háu verði.