Laugardagur 27. ágúst 2011

239. tbl. 15. árg.

E

Má bjóða yður að máta séreignastefnuna?

iga þingmenn að vera fylgjandi „séreignastefnu“ í húsnæðismálum, eins og Pétur H. Blöndal lýsir í Morgunblaðinu í gær? Séreignastefna þýðir víst hér um bil að ríkið hvetji og hjálpi mönnum, ekki síst ungu fólki, með einum eða öðrum hætti til að taka lán fyrir húsnæði. Segjum 80% lán fyrir 30 milljóna króna íbúð. Fyrir ung hjón sem eiga þessar 6 milljónir sem þarf í útborgun þýðir þetta að þau „taka stöðu“ í steinsteypu með öllu sparifé sínu og „gíra“ um 300% með 24 milljóna króna lánsfé.

Nú geta þessi hjón vissulega haft góðar tekjur og geta jafnvel gert sér vonir um að afla vel næstu áratugina til að fjármagna þetta litla vogunarsjóðsævintýr sitt. Þau eru jafnvel með „greiðslumat“ upp á vasann sem segir að þau geti keypt enn dýrari íbúð. En greiðslumat er bara sagnfræði síðasta árs og segir harla fátt um hvar hjúin verða stödd að nokkrum árum liðnum. Og svo eru það þeir sem standast matið með naumindum, jafnvel með skyndilánum frá vinum og ættingjum og lánsveðum hjá forfeðrum sínum. Þar er teflt á tæpasta vað frá upphafi.

Það er nákvæmlega engin ástæða fyrir stjórnvöld til að reka eða lokka fólk til kaupa á eigin húsnæði.

Jóhanna Sigurðardóttir, síðar forsætisráðherra, hvatti ungt fólk til íbúðarkaupa vorið 2008 og greip til sérstakra aðgerða til að koma viti fyrir þá sem þá voru eðlilega hikandi við að taka þátt í „séreignastefnunni“.

En þetta er auðvitað gleymt og grafið enda þrjú ár síðan.