Föstudagur 26. ágúst 2011

238. tbl. 15. árg.

R eglulega birtast í fjölmiðlum listar með nöfnum umsækjenda um störf hjá hinu opinbera. Til hvers eru þessir listar gerðir opinberir? Sjálfsagt hefur einhver einhvern tímann talið það til marks um „opna stjórnsýslu“.

En þetta er sýndarmennska. Telji menn á sig hallað við ráðningu í starf hjá hinu opinbera eiga þeir alltaf kost á að vekja á því athygli opinberlega að ógleymdum öllum klöguleiðunum sem menn hafa hjá nefndum, umboðsmönnum og dómstólum.

Gunnar Haugen framkvæmdastjóri Capacent ráðninga vakti athygli á því í vor að gera megi ráð fyrir að umsækjendur um störf hjá hinu opinbera séu færri en ella vegna þessara nafnbirtinga.

Strax við öflun umsækjenda hefst leitin að hæfasta einstaklingnum. Umsækjenda er fyrst og fremst aflað með auglýsingu í þeim tilgangi að fá sem stærstan hóp hæfra umsækjenda. Lög um opinbera nafnabirtingu draga hins vegar úr líkunum á að bestu umsækjendurnir fáist til að taka þátt í ráðningarferlinu. Það er mat okkar hjá Capacent ráðningum að um 15%-20% umsækjenda dragi umsókn sína til baka þegar birta á nafnalista opinberlega. Oft er mikil eftirsjá að þeim sem draga sig til baka. Þessa kröfu þarf löggjafinn að endurskoða enda ætti ekki að vera mjög erfitt að finna leið til að uppfylla tilgang laganna með öðrum hætti en nafnabirtingu.

Það liggur í augum uppi að ýmsir eiga óhægt um vik þegar nöfn umsækjenda eru gerð opinber. Starfsmenn margra einkafyrirtækja til að mynda. Þeir kæra sig oft ekki um að flíka því að þeir vilji flytja sig um set. Og því síður að það sé á allra vitorði að þeir hafi ekki fengið starf sem þeir sóttust eftir.

Þessi opna stjórnsýsla nafnbirtinga er því ekkert annað en tilraun til að loka stjórnsýslunni fyrir öðrum en opinberum starfsmönnum.