Fimmtudagur 25. ágúst 2011

237. tbl. 15. árg.

U m aldamótin 1900 voru innan við 20 hvítir nashyrningar eftir á verndarsvæði þeirra í Suður-Afríku. Nú eru þeir hins vegar yfir 20 þúsund og hvíti nashyrningurinn þar með sá algengasti á jörðinni. Á sama tíma fækkaði í öðrum stofnum nashyrninga, bæði þeim svarta í Afríku og þremur stofnum í Asíu.

Í nýrri ritgerð, Saving African Rhinos: A Market Success Story, eftir Michael ’t-Sas Rolfes sem PERC gefur út segir hann að þessa björgun frá útrýmingu megi rekja til þess að mönnum hafa gert mögulegt að kasta eign sinni á þessar forneskjulegu skepnur. Með því að leyfa sportveiðar á þeim verði til verðmæti sem landeigendur sjái sér hag í að vernda.

Hin leiðin, boð og bönn, líkt og CITES stendur fyrir gefi hins vegar veiðiþjófum í raun einkarétt á að hagnýta dýrin. Um leið hafi enginn hag af því að vernda þau.

Veiðiþjófar drepa dýrin til þess að ná hornunum af þeim sem þykja bæði stofustáss og í ýmis lyf í austurlöndum. Það er hins vegar hægt að ná hornunum af dýrunum með því að svæfa þau. Þau vaxa svo aftur. Ef alþjóðabanninu við verslun með dýrin væri lyft gætu landeigendur hlúð að dýrunum og sinnt þeirri eftirspurn sem er eftir hornum.