Miðvikudagur 24. ágúst 2011

236. tbl. 15. árg.

M

Krónan hefur sjaldan notið meiri hylli meðal fjárfesta.

una menn eftir öllu talinu um að eignasafn gamla Landsbankans gæti ekki lækkað í verði áður en eignirnar yrðu seldar og greiðslur bærust kröfuhöfum? Það virðist ef til vill langt síðan en þetta var samt núna snemma í vor. Alls kyns fyrirtæki og pappírar áttu ekki að geta annað en hækkað þar til greiðslur hæfust úr búinu, sögðu menn ábúðarfullir, eins og eignirnar sem drógu bankann fram af hengifluginu væru orðnar býflugnabú sem gæti ekki annað en yfirfyllst af hunangi handa öllum. Af þessum ástæðum áttu Íslendingar að gangast í ábyrgð fyrir skuldum þrotabúsins, ábyrgðin væri í raun ekki ábyrgð.

Stofnaður var sérstakur hópur sem hélt þessu fram í sífellu með tugmilljónaauglýsingum og sírennsli í Ríkisútvarpinu. Í frétt á síðu Áfram-hópsins „Bankinn borgar“ hinn 7. apríl síðastliðinn sagði: „Frétt FT um nýjan verðmiða á Iceland matvörukeðjunni þýðir að út frá þeim samningum sem nú liggja fyrir í Icesave lendir ekki króna á ríkissjóði. Icesave kostar því 0 kr. ef jaíð verður ofan á. Hið sama gildir ekki um dómstólaleiðina enda er fullkominn óvissa um höfuðstól og vexti. Vegna þess tíma sem dómstólaleiðin tekur gæti vaxtakostnaðurinn rokið upp úr öllu valdi.“

Nýr verðmiði á matvörukeðju, samkvæmt fréttum! Líklega trúði blessað fólkið þessu.

Undanfarið hafa verðbréfamarkaðir hins vegar skriðið með jörðinni á meðan fjárfestar auglýsa eftir hálsmenum og tannfyllingum til að varðveita fjármuni sína. Dow Jones hlutabréfavísitalan hefur lækkað um 12% síðastliðinn mánuð.