Helgarsprokið 31. júlí 2011

212. tbl. 15. árg.

Þ að er staðreynd að ýmsir menn greiða öðru fólki laun um hver mánaðamót án þess að hafa hugmynd um hver fjárhæðin í launaumslaginu er. Hér er átt við skattgreiðendur sem greiða opinberum starfsmönnum laun.

Hvers vegna eru launaseðlar opinberra starfsmanna – og já raunar allir reikningar sem hið opinbera greiðir fyrir vörur og þjónustu – ekki birtir opinberlega?

Þessar upplýsingar eru allar til reiðu í tölvukerfum ríkis og sveitarfélaga.

En þetta verður auðvitað aldrei gert, allra síst nú þegar fólkið sem talaði mest um “gagnsæi” og “allt upp á borðum” heldur um taumana.

Vefþjóðviljinn vekur athygli á þessum möguleika vegna hins árlega námskeiðs í hnýsni, slefburði og öðrum dónaskap sem nú stendur yfir hjá skattstjórum landsins og fáir sækja af meiri ákefð en fjölmiðlamenn. Skattstjórarnir birta upplýsingar um tekjur einstaklinga sem enginn er neyddur til að greiða laun. Flestir þessara einstaklinga kjósa að fá launaseðla sína senda í umslagi heim til sín en ekki á skrifstofur fjölmiðlanna. Þeir líta á þessari upplýsingar sem einkamálefni sín.

Það er undarlegt að birta ekki launaseðla opinberra starfsmanna og aðra reikninga sem ríki og sveitarfélög greiða – með skatttekjum af hinum almenna manni – en hamast svo við að opinbera einkamálefni fólks.

Viðskiptablaðið er með umhugsunarverða tillögu í þessu samhengi í leiðara síðasta tölublaðs. Þar segir:

Samhliða því birtir Viðskiptablaðið upplýsingar um fjárhagsmálefni alþingismanna sem fengust úr álagningarskrá. Það er gert svo þingmenn – þeir sem fara með löggjafarvaldið og geta auðveldlega breytt þessari framkvæmd – finni það á eigin skinni hvernig það er að fjallað sé um fjármál þeirra ítarlega á opinberum vettvangi. Telji þeir þetta mikilvægan hluta af opnu og lýðræðislegu þjóðfélagið væri réttast að birta upplýsingar um fjármál maka þeirra og barna líka, jafnvel mynda húsnæði og bíla og athuga hvort þetta sé ekki örugglega allt í samræmi við skattgreiðslur þeirra. Er það ekki tilgangurinn? Ekki er rétt að birta upplýsingar um fjárhagsmálefni ríkisskattstjóra, sem er embættismaður og þarf að framfylgja lögunum. Sú afstaða var tekin hér á Viðskiptablaðinu þrátt fyrir að hann hafi enga heimild í lögum til að senda út svokallaðan hákarlalista sem er listi yfir hæstu gjaldendur í landinu. Áður voru slíkir listar sendir úr hverju skattumdæmi en nú tók ríkisskattstjóri að sér að finna 50 hæstu gjaldendurna eftir að umdæmin voru sameinuð í eitt. Þá er óskiljanlegt að embættið útvegi fjölmiðlum sérstakt herbergi þar sem starfsmenn þeirra geta skráð allar upplýsingar í friði fyrir almenningi á biðstofunni.

Já hvernig þætti þeim þingmönnum, sem styðja hina árlegu árás á friðhelgi einkalífs sem birting álagningarskrá óneitanlega er, að birt væri í samhengi yfirlit yfir tekjur og eignir nánustu fjölskyldu þeirra? Og á meðan skattstjóri er svo ósmekklegur að setja saman hákarlalista til að fóðra fjölmiðlana þætti honum ekki gaman að láta rekja tekjur og eignir sínar og sinna í smáatriðum?