Laugardagur 30. júlí 2011

211. tbl. 15. árg.

Þ að hefur lengi tíðkast að menn séu með atvinnurekstur sinn í einkahlutafélagi og eigi þess þá kost að taka hagnað út úr þeim sem arð frekar en laun. Skattyfirvöld leggja þó þá kvöð á menn að þeir taki tilteknar lágmarksfjárhæðir út úr rekstrinum sem laun. Er æði misjafnt hvaða fjárhæðir yfirvöld ætla mönnum að greiða sér í laun í svonefnt reiknað endurgjald. Eru menn hiklaust dregnir í dilka eftir starfi. Þannig þarf sauðfjárbóndi í einkahlutafélagi að skammta sér að lágmarki 102 þúsund krónur í laun en mjólkurbóndinn 133 þúsund. Vandast málið ef bóndi er á báðum vígstöðvum eða heldur geitur sem í engu er getið í reglum ríkisskattstjóra.

Í fyrsta og dýrasta flokki eru svonefndir sérfræðingar. Í reglum ríkisskattstjóra segir um tvo hæstu flokka sérfræðinga:

Flokkur A. Sérfræðiþjónusta
Til flokks A teljast sérmenntaðir menn vegna starfa í sérgrein sinni og/ eða stjórnunarstarfa á þeim vettvangi, svo sem lyfjafræðingar, læknar,
tannlæknar, lögfræðingar, löggiltir endurskoðendur, verkfræðingar,  ráðgjafar og aðrir sérfræðingar, m.a. á tölvusviði, í fjármálaráðgjöf og  verðbréfaviðskiptum.
Flokkur A skiptist í sjö undirflokka:
A(0) Sérfræðingur sem situr í og/eða vinnur í þágu skilanefnda eða slitastjórna fjármálafyrirtækja
Mánaðarlaun 1.500.000 kr.
Árslaun 18.000.000 kr.
A(1) Sérfræðingur sem jafnframt stýrir rekstri þar sem starfa  með honum fleiri en fimmtán starfsmenn eða samtals greidd laun til starfsmanna og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag samsvara árslaunum fleiri en fimmtán manna.
Mánaðarlaun 725.000 kr.
Árslaun 8.700.000 kr.

Starfsmenn skilanefnda og slitastjórna, sem skipaðar voru af hinu opinbera samkvæmt sérstökum lögum þess, og selja þjónustu sína í gegnum einkahlutafélög eiga að lágmarki að greiða sér eina og hálfa milljón á mánuði áður en þeir geta tekið arð út úr félögum sínum.

Þetta eru vissulega áhugaverðar hugmyndir um launakjör hinna hálfopinberu nefnda sem starfa við uppgjör á bankaþrotinu.

Eru þessar reglur ekki settar af sömu stjórnvöldum og gáfu út fyrirskipun um að enginn þegn hefði hærri laun en Jóhanna Sigurðardóttir?