Fimmtudagur 30. júní 2011

181. tbl. 15. árg.

K annski muna einhverjir eftir 15% stýrivöxtum Seðlabanka Íslands á árunum fyrir hrun bankanna. Kannski ekki. Þeir voru ekki margir sem treystu sér til að slá lán á slíkum kjörum. Sumir leituðu því í vaxtakjör á öðrum myntum, frönkum, jenum, dölum og evrum sem voru á miklu betri – að því er sýndist. Íslendingar voru ekki einir um að láta glepjast.

Sjálf fjármálakreppan á Vesturlöndum frá 2008 er afleiðing af því að menn byggðu ákvarðanir sínar á þessum „góðu“ vaxtakjörum sem gáfu þó fullkomlega falska mynd af framtíðinni.

Spænski hagfræðiprófessorinn Jesús Huerta de Soto hefur lýst því hvernig fasteignabólan myndaðist á Spáni í kjölfar upptöku evrunnar:

Það má læra ýmislegt af ástandinu á Spáni. Efnahagur Spánar blómstraði að hluta vegna raunverulegra umbóta eins og aukins frelsis í stjórnartíð José María Aznar. Engu að síður átti innistæðulaus aukning peningamagns stóran þátt í uppsveiflunni. Aukning peningamagns á Spáni var nær þrefalt meiri en í Frakklandi og Þýskalandi. Þegar vextir lækkuðu á Spáni vegna þátttöku í myntsamstarfinu voru viðbrögðin eins og vænta mátti: mikið framboð af ódýrum peningum úr spænskum bönkum, einkum til að fjármagna spákaupmennsku á fasteignamarkaði. Þetta lánsfé bjuggu spænsku bankarnir til ex nihilo. Stjórnendur Seðlabanka Evrópu létu sem ekkert væri. Þegar verðbólga gerði vart við sig vék seðlabankinn hins vegar ekki frá stefnu sinni og lækkaði ekki vexti þótt ýmis ríki myntbandalagsins, eins og Spánn, standi nú frammi fyrir því að flestar fjárfestingar liðinna ára í húsnæði hafi verið byggðar á röngum forsendum. Við þessum ríkjum blasir löng og ströng leiðrétting og aðlögun að raunveruleikanum.

Þetta er aðeins eitt dæmið um afleiðingar þeirra fráleitu hugmyndar að láta ríkisvaldið, stjórnmálamenn og seðlabanka, ákvarða verð á fjármagni. Búið er að taka verðlagningarvald af stjórnmálamönnum á mörgum sviðum þótt enn geri þeir sinn óskunda í landbúnaði. Það hvarflar vart að nokkrum manni lengur að ríkið eigi að verðleggja hluti en engu að síður virðast menn láta sér í léttu rúmi liggja að grunnþætti markaðskerfisins sé handstýrt af opinberum stofnunum.

Það dugar jafnvel ekki til að hreyfa við þessu að fjármálakerfið fari um koll.