Á dögunum nefndi borgarstjórinn í Reykjavík Laugaveginn mannréttindaveg í einn dag og setti upp skilti því til staðfestingar. Í framhaldi hlýtur að mega treysta því að borgarstjórinn beiti sér fyrir því að friðhelgi einkalífs, atvinnufrelsi og eignarréttur verði virt við götuna.
Á hinum mergjuðu „frjálshyggjuárunum fyrir hrun“ voru eigendur veitingastaða til að mynda sviptir þeim eignarrétti sínum að þeir sjálfir og gestir þeirra mættu reykja tóbak. Var það að sögn gert fyrir þá sem vildu ekki vera í tóbaksreyk. Eigandi hússins setur ekki lengur umgengnisreglur heldur eitthvað allt annað fólk.
Líkt og víða annars staðar eru svo reykingar og neysla á ýmsum öðrum vímuefnum bannaðar. Jafnvel fullorðinn sjálfráða maður sem situr einn með grasið sitt í eigin kvistherbergi við mannréttindaveginum á það á hættu að fíkniefnalögregla ryðjist inn á hann með alvæpni og snuðrandi hunda. Á mannréttindavegi er friðhelgi einkalífs og heimilis léttari á metunum en 1,3, grömm af hassi og áhöld til neyslu. Á frjálshyggjuárunum voru refsingar við brotum á fíkniefnalöggjöfinni einnig hertar verulega svo að nú fá menn allt að 12 ára fangelsi fyrir slík brot, sem geta til að mynda verið að mæta til landsins með poka fullan af pillum sem fólk vill hugsanlega kaupa.
Á mannréttindaveginum og nálægum götum starfaði áður fólk sem hafði atvinnu af því að leyfa öðru fólki að horfa á sig hátta meðan stigin voru létt dansspor. Á frjálshyggjuárunum var byrjað að sauma að þessu fólki og vernda það fyrir sjálfu sér og nú er svo komið að það nýtur ekki atvinnufrelsis á mannréttindaveginum.
Til að gæta jafnræðis milli fáklæddra og kappklæddra hefur varaformaður Sjálfstæðisflokksins frá „frjálshyggjuárunum fyrir hrun“ svo boðað bann við því að klæða sig frá hvirfli til ilja eða hylja andlit sitt. Umsagnir um frumvarp þess efnis eiga eftir að berast frá jólasveininum og aðstandendum mottumars.
Við mannréttindaveg eru fleiri kaupmenn en við nokkra aðra götu í Reykjavík. En þar er þó enginn sem selur nokkrar vinsælustu vörutegund landsins, vín, bjór og brennivín. Furðulegt? Nei, ríkið hefur tekið þetta atvinnufrelsi af kaupmönnum og rekur sjálft verslanir með þessar veigar.