Þriðjudagur 28. júní 2011

179. tbl. 15. árg.

V efþjóðviljinn uppgötvaði sér til skelfingar á dögunum að hann getur hvorki keypt þýsk ríkisskuldabréf né grísk með þýskri ábyrgð. Hann sem ætlaði að leggja fyrir til evru áranna. Þessar hömlur á fjárfestingar Íslendinga erlendis eru einn liðurinn í tilraunum stjórnvalda til að styrkja gengi krónunnar með aðgerðum sem eru mesta vantraust sem sýna má gjaldmiðli, gjaldeyrishöftum.

En þá var ritinu bent á það er alls ekki útilokað að fjárfesta erlendis. Það þarf bara að vera í einhverju öðru en verðbréfum. Þótt Íslendingum sé bannað að kaupa grísk og þýsk skuldabréf er ekkert því til fyrirstöðu að kaupa ýmsar vörur til heimilisins eins og eðalvín, pelsa, skartgripi, listaverk og nokkrar raðir í Víkingalottói. Velkomin í eignastýringu Jóhönnu og Steingríms.

Eðalvín geta Íslendingar keypt í einkareknum verslunum erlendis og látið senda sér heim að dyrum, rétt eins og bækur. Íslendingum er heimilt að kaupa áfengi af öllum kaupmönnum heimsins nema íslenskum.

Þá mun á banni við verðbréfakaupum sú glufa að menn geta reitt fram svonefndan séreignasparnað í erlenda sjóði. Einhver gæti trúað að þeim sem það gera hafi fjölgað talsvert að undaförnu. Þótt ekki væri nema áætlana ríkisstjórnarinnar um að leggja eignarskatt á innlenda lífeyrissjóði.

Það gæti til að mynda verið fróðlegt að vita hvort þeir sem lögðu gjaldeyrishöftin á landsmenn og ekki síður þeir sem sjá um framfylgja þeim af mikill hörku nýti sér þessa glufu. Leggja starfsmenn seðlabankans til að mynda séreignasparnað sinn og hið hóflega mótframlag bankans í erlenda sjóði?

Vafalaust eru slíkar upplýsingar í þjóðfélagi gagnsæis og norrænnar velferðar uppi á einhverju borði, háborði kannski.

Eðalvínavísitalan Premium Fine Wine Index í loftköstum. Þarna gæti verið bóla sem Íslendingar eiga eftir að prófa.