Mánudagur 27. júní 2011

178. tbl. 15. árg.

A lveg er magnað hversu fjölmiðlar hafa hlíft Katrínu Júlíusdóttur iðnaðarráðherra sem á dögunum átti það innlegg í kjaraviðræður flugmanna og Flugleiða að til greina kæmi að setja lög til að banna aðgerðir flugmanna.

Flugmenn eru ekki í verkfalli. Þeir vinna alla samningsbundna vinnu en taka einfaldlega ekki að sér að vinna yfirvinnu. Enginn fjölmiðill spyr Katrínu hvernig lögin eigi að hljóma. Á að skipa flugmönnum að vinna yfirvinnu hvenær sem vinnuveitandinn skipar þeim svo?

Flugmenn eru fremur hátt launuð stétt enda oft mjög hátt uppi. Ef flugmenn bæta á sig yfirvinnu, samkvæmt fyrirmælum Katrínar Júlíusdóttur iðnaðarráðherra, og fá væntanlega hærri laun, verða þeir þá ekki komnir á of há laun rétt á meðan? Eins og menn vita þá var fyrir tveimur árum innleitt vinnuverðgildissiðferði á Íslandi, sem snýst um að enginn fái hærri laun en mikilvægasti starfsmaður allra starfsmanna, sjálf Jóhanna Sigurðardóttir.

Frá því hefur verið skýrt í fréttum að mjög sé nú farið að skorta lækna á Íslandi. Forsvarsmenn lækna segja að nákvæmlega enginn læknir hafi snúið heim úr sérnámi síðustu rúmlega tvö árin. Það er auðvitað óháð launafrystingar- en skattahækkunarstefnu hinna framsæknu stjórnvalda, enda gæta fréttamenn þess vandlega að nefna aldrei að þar kunni að vera samband á milli. Sennilega verður ekki ráðið fram úr þessum vanda fyrr en íslenskum stjórnvöldum tekst að flytja til annarra landa þá gullnu reglu jóhönnulands, að þar megi helst enginn fá hærri laun en Jóhanna Sigurðardóttir.

Annars hljóta stjórnvöld og aðrir vinstrimenn að fagna því ef flugmenn sitja kyrrir á jörðu niðri en læknar hverfa úr landi. Vinstrimenn tala jafnan eins og „launajöfnuður“ sé eftirsóknarverður í sjálfum sér. Samkvæmt þeirri kenningu ættu aðstæður fjöldans að batna við það eitt að hálaunamenn lækki í launum eða hverfi hreinlega af vinnumarkaði. Við hvern lækni sem kemur til starfa eykst hinn hræðilegi „launamunur í samfélaginu“, sem allir menn með áunna réttlætiskennd vita að er öllum í óhag.

Þess vegna fagna allir framfarasinnaðir Íslendingar að eiga stjórnvöld sem flæma hálaunafólk úr landi, hindra kjarabætur en snarhækka skatta. Ef hér verður norræn velferðarstjórn nógu lengi er hugsanlegt að landsmenn nái því markmiði að enginn skari fram úr Jóhönnu Sigurðardóttur.