Helgarsprokið 26. júní 2011

177. tbl. 15. árg.

E f marka má skoðanakannanir þá blæs ekki byrlega fyrir frjálslyndu fólki á Íslandi þessa dagana. Undir líklega verstu vinstristjórn sögunnar mælist Sjálfstæðisflokkurinn með um 35% fylgi og ekki margt sem á þessari stundu bendir til þess að frjálslynd stjórnvöld taki við völdum á landinu, ef kosið verður aftur til alþingis. Þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi stundum valdið vonbrigðum á síðustu misserum þá eru aðrir þingflokkar enn fjarstæðukenndari kostir fyrir frjálslynt fólk, því þótt Framsóknarflokkurinn njóti öflugs nýs formanns, sem virðist hafa raunverulega skoðanaundirstöðu í helstu málum og vera öllum öðrum framsóknarformönnum óháðari dægursveiflum þjóðfélagsumræðunnar, þá situr flokkurinn uppi með ýmsa mun lakari þingmenn, sem gera það að verkum að engin leið er að leggja mikið traust á flokkinn.

Sjálfstæðisflokkurinn geldur meðal annars fyrir það að margir kenna honum um hrun bankanna árið 2008. Skiptir þar verulegu máli að forystumenn flokksins hafa undanfarin ár nær ekkert tekið til varna fyrir flokkinn, stefnu hans eða árangur. Vinstrimenn, bæði á þingi og fjölmiðlum, hafa auðvitað nýtt sér þá aðstöðu að vera nær einir um sviðið, og hafa náð að hamra eigin söguskýringar inn í vitund fjölda fólks. Á þingi hefur sjálfstæðismönnum í stjórnarandstöðu ekki tekist að stöðva eitt einasta baráttumál vinstriflokkanna. Inngöngubeiðni í Evrópusambandið, skattahækkanir, stjórnlagaþing og síðar„stjórnlagaráð“, ákæra á Geir Haarde, þrenn Icesave-lög, allt þetta fór í gegnum þingið. Icesave var stöðvað utan þings án aðstoðar forystu Sjálfstæðisflokksins. Meira að segja kreddufrumvörp stjórnarmeirihlutans fara í gegnum þingið mótatkvæðalaust. Frumvörp vinstrigrænna um vændi, nektardans, flengingar og „austurrísku leiðina“ eru dæmi um mál sem í flestum öðrum löndum hefðu fengið alvarlega umræðu frá báðum hliðum, en á Íslandi heyrist bara klapp í samhljóða þingsal þar sem enginn vill vera gómaður með ranga skoðun.

Í nýútkomnu sumarhefti tímaritsins Þjóðmála skrifar Óli Björn Kárason blaðamaður og varaþingmaður brýningargrein sem hann nefnir Manifesto hægri manns. Þar brýnir Óli Björn flokkinn til dáða og krefst þess að hann taki fastar til varna fyrir hinn almenna mann, borgarann, og tali skýrt máli „allra þeirra sem vilja takmarka völd ríkisins, tryggja frelsi borgaranna en um leið standa vörð um velferðarríkið, án þess að ríkisvæða náungakærleikann.“ Flokkurinn eigi að „lýsa því yfir að hann sé flokkur atvinnurekenda, flokkur launamanna, flokkur bænda, flokkur þeirra sem þurfa á samhjálp að halda, flokkur unga fólksins og þeirra sem eldri eru. En fyrst og fremst á Sjálfstæðisflokkurinn að lýsa því yfir að hann sé flokkur millistéttarinnar – hins venjulega Íslendings.“

Óli Björn segir að Sjálfstæðismenn eigi að bera höfuðið hátt og hætta að láta vinstrimenn eina stjórna og móta þjóðmálaumræðuna: „Sjálfstæðisflokkurinn á ekki að láta ýta sér út í horn íslenskra stjórnmála. Hann á að mæta pólitískum andstæðingum hvenær og hvar sem er. Flokksmenn eiga að halda til haga þeim gríðarlega árangri sem náðist undir forystu Sjálfstæðisflokksins, ekki síst á sjöunda og tíunda áratug síðustu aldar sem og á fyrstu árum nýrrar aldar. Þá nutu Íslendingar mestu framfara á sviði atvinnumála og grunnurinn að öflugu velferðarkerfi var lagður. Sótt var fram á sviði lista, menningar og mennta. Menn eiga því að líta til sögunnar með stolti en um leið að gangast við því að ýmislegt fór úrskeiðis. Þar skiptir tvennt mestu. Ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokksins misstu stjórn á vexti ríkisvaldsins og flókið reglugerðaveldi náði að festa rætur.“

En það er svo sem auðvelt að lýsa hinu og þessu yfir. Óli Björn áttar sig auðvitað á því að það er flestum flokkum ljúft að segjast vera málsvari næstum hvers einasta manns í landinu sem ekki stundar útgerð eða vill að samningar standi. Hann brýnir flokk sinn því til að „hefja skipulega og harða hugmyndabaráttu“, hversu vel sem núverandi þingflokki líst nú á slík tilmæli. Hann segir að „flokksmenn en þó fyrst og fremst kjörnir fulltrúar flokksins, jafnt á Alþingi og í sveitarstjórnum, [þurfi] að öðlast aftur sjálfstraust sem byggist á einlægri sannfæringu hjartans.“ Hér er hins vegar hætt við að nokkuð langt sé í land. Þegar venjulegur kjörinn fulltrúi Sjálfstæðisflokksins birtist á skjá eða í ræðustóli, þá virðist hann nú ekki alltaf tala af djúpri pólitískri sannfæringu sem byggð sé á traustri undirstöðu. Hversu margir þingmenn eða sveitarstjórnarmenn Sjálfstæðisflokksins ætli hafi djúpa pólitíska sannfæringu fyrir frelsi einstaklingsins, fyrir því að hver maður verði sem mest sjálfráða um eigið líf, fyrir því að ríkið eigi ekki að reyna að stjórna daglegu lífi borgaranna umfram allra brýnustu nauðsyn og fyrir því að launamaðurinn sé betur kominn að verkalaununum en skattheimtumaðurinn?

Hvernig hafa kjörnir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins staðið sig á allra síðustu árum? Hvað hafa þeir reynst tilbúnir að leggja á sig til að berjast gegn sköttum, boðum, bönnum og höftum? Eru þeir kannski uppteknari af því að fá hrós hjá þrýstihópunum? Tónlistarhús hér, fótboltastúka þar, hjólabraut hér, sundlaug þar. Ekki reykja, ekki dansa nakinn, hjólaðu með hjálm. Enginn nema Samfylkingin vill ganga í Evrópusambandið en það er samt send inn umsókn. Æ samþykkjum bara þessar Icesave-kröfur svo málið klárist. Kvótafrumvarp verður að lögum eftir örfárra daga umræður því enginn getur hugsað sér að haldið verði sumarþing. Þingmenn voru búnir að kaupa sér utanlandsferðir. Á þingið ekki að vera „fjölskylduvænn vinnustaður“? Við þingmenn erum gagnrýndir fyrir fjárveitingar svo við gerum þetta bara faglega og látum ókosna embættismenn, sem enga ábyrgð bera, ráða þessu. Ef þið eruð óánægð með ákvarðanir þeirra, þá fer málið í ferli og allir fá bætur.

Þetta síðasta hljómar ef til vill sakleysislega, en er í raun hluti af stórhættulegu vandamáli. Oftrúin á „fagmennskuna“ sem hefur blossað upp á síðustu árum leiðir til þess að á fleiri og fleiri sviðum er opinbert vald tekið frá lýðræðislega kosnu fólki og fært til ókosinna „fagmanna“, sem enga ábyrgð bera gagnvart neinum. Gegn þessu er afar mikilvægt að sporna. Hið opinbera á að taka fáar ákvarðanir, en sem allra flestar þessara fáu ákvarðana eiga að taka menn með pólitískt umboð en ekki ókosnir umboðslausir menn. Í gein sinni segir Óli Björn Kárason nefnilega réttilega

Einhver stærsta ögrun Sjálfstæðisflokksins á komandi mánuðum og árum er að segja teknókratismanum stríð á hendur. Segja hingað og ekki lengra. Baráttan við teknókratana er hluti þess að flokkurinn hverfi aftur til fortíðar – byrji að nýju að huga að rótunum.