Laugardagur 25. júní 2011

176. tbl. 15. árg.

F rá því almennir launþegar fóru að leggja fé í svonefndan séreignalífeyrissparnað við lok síðustu aldar hafa dunið á þeim skilaboð frá stjórnvöldum og vörslumönnum sjóðanna um ýmist ágæti slíks sparnaðar umfram annan. Meðal þess sem haldið var að fólki var að fé þetta væri ósnertanlegt og enginn skattur greiddur af því fyrr en við útgreiðslu, líkt og hefði gilt um almennan lífeyrissparnað um áratugi.

Á annan áratug hafa margir lagt trúnað á þetta og lagt til hliðar sem svarar 6% af launum sínum; 4% eigið framlag og 2% svokallað mótframlag launagreiðanda. Oft eru þetta því um 10% af ráðstöfunartekjum eftir skatt svo að um verulegan sparnað er að ræða og mikla hagsmuni.

Þrátt fyrir margvíslegar tilraunir norrænu velferðarstjórnarinnar til að naga helstu stoðir undan íslensku þjóðfélagi kom það engu að síður á óvart þegar hún boðaði í vor að skattleggja eignir lífeyrissjóða. Líkt og flestir nýir skattar átti þessi skattur að hljóma afskaplega sakleysislega, aðeins  0,1% – af eignum lífeyrissjóðanna. Eignir sjóðanna eru um 2.000 milljarðar króna svo skattur upp á 0,1% myndi skila 2.000 milljónum króna. Smá fyrningarleið á þetta eins og allt annað.

Frá þessu var þó fallið í þessari atrennu en skaðinn er skeður. Hver trúir því nú að eitthvað hald sé í loforðum um að þetta fé verði látið í friði þar til það verður greitt út til eigenda sinna?

Vefþjóðviljinn veltir því hins vegar fyrir sér hvort ríkisstjórnin hefði einnig lagt þennan skatt á þá nokkur hundruð milljarða króna sem ríkið á eftir að greiða inn á lífeyrissjóði opinberra starfsmanna og teljast til lífeyrisréttinda opinberra starfsmanna.