Föstudagur 24. júní 2011

175. tbl. 15. árg.

E ins og menn vita hefur Samfylkingin komið því til leiðar að fram er komið stjórnarfrumvarp á Alþingi um að minnka mjög hagkvæmi og verðmætasköpun í undirstöðuatvinnugrein landsins. Það er sami flokkur og hefur látið landið sækja um aðild að Evrópusambandinu og stendur jafnframt að atlögu að stjórnarskrá lýðveldisins með öllum tiltækum ráðum. Allt þetta kemst Samfylkingin upp með, fyrst og fremst vegna þess að Steingrímur J. Sigfússon stýrir litlum hópi þingmanna sem sitja og standa eins og Samfylkingin vill. Í staðinn fá þeir að hækka skatta, draga mátt úr atvinnulífinu, ákæra Geir Haarde og sýna Sjálfstæðisflokknum sem slíkum fyrirlitningu sína, sem mun vera hugsað sem sérstök refsing fyrir það að sá flokkur hafi ekki myndað stjórn með þessum sama Steingrími vorið 2007.

Raunar hefði slík stjórn verið mun skárri en sú sem mynduð var þetta vor, en það er annað mál.

Rætt var við Steingrím í útvarpi í hádeginu í dag. Þar taldi hann að framkomið frumvarp sjávarútvegsráðherra væri stórt skref til þess að ljúka áralöngum deilum um fiskveiðistjórnun, en til þess væri mikið á sig leggjandi. Í öðru lagi væri ljóst að frumvarpinu yrði töluvert breytt á þingi, áður en það yrði að lögum.

Frumvarpið er svo slæmt að varla hefur fundist nokkur maður sem mælir því bót. Samt lá ofboðslega á að leggja það fram. Það lá líka ofboðslega á að ljúka fyrstu umræðu um það á þingi. Jóhanna Sigurðardóttir hótaði þingmönnum sumarþingi, ef þeir lykju ekki umræðunni þegar hún vildi, og þá brustu allar varnir stjórnarandstöðuþingmanna, því þeir héldu að þeir væru einu þingmennirnir sem væru búnir að panta utanlandsferðir og að það yrðu leiðindi á heimilinu ef þeir semdu ekki við Jóhönnu. Sennilega verða kjósendur í næstu prófkjörum að spyrja frambjóðendur í fullri alvöru hvort þeir séu í framboði til löggjafarþings eða séu að leita að „fjölskylduvænum vinnustað“.

Fréttamaðurinn spurði Steingrím því miður ekki, hvort sú kenning, að mikið væri á sig leggjandi til að ljúka deilum um fiskveiðistjórnunina gilti bara um núgildandi lög eða hvort hún myndi gilda áfram um þau kreddulög sem Samfylkingunni mun vafalaust takast að troða í gegnum þingið með hjálp vinstrigrænna og kosningahræddra stjórnarandstöðuþingmanna. Ef „ósætti“ um núgildandi fiskveiðistjórnunarkerfi er sérstök röksemd til að breyta því, er þá ekki öruggt að Steingrímur muni ekki samþykkja breytingar á kerfinu ef „ósætti“ er um þær breytingar?