Föstudagur 1. júlí 2011

182. tbl. 15. árg.

Í gær var Dominique Strauss-Kahn ærulaus maður í augum milljóna manna. Sat í stofufangelsi, grunaður um hrottafengna nauðgun og sönnunargögn gegn honum sögð yfirþyrmandi. Fljótlega eftir að hann var borinn hinum alvarlegu sökum, stigu fleiri konur fram í heimalandi hans og báru hann svipuðum sökum. Þótti þá flestum sem ekki þyrfti meira að segja, enda telja margir að ásakanir númer tvö og þrjú séu sannanir fyrir ásökun númer eitt. Eftir nokkurra daga afhjúpanir virtist sem Strauss-Kahn hefði hvergi mátt sjá pils án þess að breytast í óargadýr.

Dominique Strauss-Kahn breyttist á augabragði úr framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og væntanlegum forsetaframbjóðanda sósíalista í ærulausan ofbeldismann. Í dag var hann hins vegar leystur úr haldi þar sem rannsókn þótti, eftir því sem fregnir herma, hafa leitt í ljós að kærandinn sjálfur væri ekki ýkja trúverðugur. Franskir sósíalistar eru þegar sagðir farnir að „fagna sigri“.

Það blasir auðvitað við, að ekkert hefur verið í sannað í málinu, hvorki sök hans né að hún hafi logið. Vera kann að hann hafi í raun framið það brot sem honum var gefið að sök, þrátt fyrir að sitthvað kunni að hafa reynst grunsamlegt í fari kærandans, og það getur líka verið að þær konur heima í Frakklandi sem stigu fram og báru Strauss-Kahn sökum hafi allar sagt satt. Og þetta þarf ekki einu sinni að fara saman. Kæran í New York getur verið uppspuni þótt einhverjar frönsku ásakananna séu það ekki. Og öfugt. En þetta mál ætti einfaldlega að vera mönnum til áminningar um, að menn verða að fara varlega í opinberri umræðu um slíkar og aðrar alvarlegar ásakanir.

Menn mega einfaldlega ekki gefa afslátt af þeirri reglu að menn teljist saklausir uns sekt þeirra er sönnuð. Ásökun er ekki það sama og sönnun. Fjölmiðlar hafa til dæmis ekki það hlutverk að sakfella menn eða gera þá kröfu að fólk trúi ásökunum. Og að sjálfsögðu er ekki gert lítið úr alvarleika kynferðisbrota þótt vakin sé athygli á þessari sjálfsögðu staðreynd.

Menn geta ímyndað sér þá aðstöðu að fjórir einstaklingar stigi fram einn daginn og beri sök á einstakling. Sá fyrsti segir að hann hafi kýlt sig í rot fyrir þrjátíu árum. Annar segir að fyrir tuttugu árum hafi hann stolið af þér þúsundkrónum. Sá þriðji segir að fyrir tíu árum hafi maðurinn reynt að myrða sig. Sá fjórði segir að fyrir fjörutíu árum hafi hann áreitt sig kynferðislega. Maðurinn neitar hins vegar öllum ásökunum. Er einhver sökin sönnuð? Eru þær kannski allar sannaðar? Þarf kannski ekkert að sanna? Og hvað ef allir hefðu borið samskonar sök á manninn, hefðu þær þá allar verið sannaðar?

Á dögunum var maður úrskurðaður í gæsluvarðhald, grunaður um að hafa nauðgað konu. Hann neitar sök, og rétt er að taka fram að hér er ekki um að ræða umtalað mál þar sem grunaður maður er sagður hafa tekið ljósmyndir af sér að verki. Ríkisútvarpið sagði frá málinu með orðunum: „Nauðgari verður áfram í haldi.“ Augljóslega getur mjög vel verið að maðurinn sé í raun nauðgari. En hefur hann verið sakfelldur fyrir nauðgun ennþá? Og ef ekki, hvers vegna kallar Ríkisútvarpið hann þá nauðgara?

Menn eiga einfaldlega að fara varlega í ásökunum á opinberum vettvangi. Eiginlega ættu menn að fara því varlegar sem ásakanirnar eru alvarlegri. Það er alls ekki verið að draga úr alvarleika brotanna, þótt farið sé fram á að menn virði þá reglu að hver maður sé talinn saklaus þar til sekt er sönnuð. Ætti sú regla ekki að vera því mikilvægari sem sökin er alvarlegri?