Miðvikudagur 22. júní 2011

173. tbl. 15. árg.

U m þessar mundir eru dagar lengstir og nætur skemmstar. Er því lesbjart fram undir morgun og þar með augljóst að flestir menn sitja lesandi og lesandi þar til allt er upp lesið í kringum þá og ekki annað til bjargar en að fara þegar í stað í Bóksölu Andríkis og panta meira.

Sú ágæta bóksala hefur nú breytt háttum sínum þannig, að nú geta viðskiptavinir ekki aðeins greitt með greiðslukorti sem fyrr heldur einnig með millifærslu á bankareikning. Þeir, sem ekki vilja stunda greiðslukortaviðskipti á lýðnetinu, þurfa því ekki lengur að neita sér um nýjustu verk Lysanders Spooners og félaga, glóandi heit úr prentsmiðjunni.

Einnig má benda húsráðendum í sumarbústöðum á á þeir geta birgt sig upp af helstu ritum og staðið keikir við kostinn þegar gesti ber að garði.

Sú bók sem mest hefur selst undanfarið er metsölubók Björns Bjarnasonar, Rosabaugur yfir Íslandi. Meðal þeirra sem lesið hefur bókina er Gunnlaugur Júlíusson hagfræðingur, sem einnig er þekktur af ótrúlegum afrekum sínum á hlaupabrautunum. Í einum af sínum áhugaverðu netpistlum skrifar Gunnlaugur:

Við lestur á Rosabaugnum áttar maður sig á því hvað minnið er svikult. Margt gleymist fljótt þótt að það sé ekki langt um liðið að það átti sér stað. Björn hefur unnið þarft verk við að draga fram og raða saman þeim bitum í púsluspil þeirrar samtímasögu sem er undanfari Baugsréttarhaldanna. Í bókinni kemur fram um hvað þau snerust, umræðuna sem fór fram á meðan á þeim stóð og hvernig þeim lyktaði. Baugur hefur leikið það stórt hlutverk í Íslandssögunni á síðustu 20 árum að það er þakkarvert að þessi saga sé skráð. Í upphafi var Bónus og Bónusfeðgarnir í nokkurskonar Hróa Hattar hlutverki. Vinir litla mannsins. Síðan breyttist margt og Rosabaugur fór að myndast yfir Íslandi.

Eitt af því sem er áhugavert er að draga fram og setja í samhengi sögunnar hvernig ákveðnir einstaklingar tóku afstöðu við framgöngu málsins alls. Það bítur vafalaust nú fyrir ýmsa að lesa sín eigin skrif um málið þegar viðhorfið er orðið annað. Sá tónn sem birtist í ummælum ýmissa álitsgjafa segir betur en nokkuð annað hvað samtímasagan getur verið bitrur þegar hún er leidd fram í dagsljósið. Reynt er að sneiða hjá því sem máli skiptir heldur er seilst í allar áttir til að gera skrif Björns sem minnstan.

Mér finnst mikill fengur að bók Björns, Rosabaugi, og á örugglega eftir að lesa hana aftur og aftur. Í henni er dregið saman það mikið af heimildum sem hverjum manni er hollt að hafa þekkingu á að það er hæpið að maður nái að innbyrða það allt saman við einn yfirlestur.

Enn eru til örfá eintök af Rosabaugi yfir Íslandi í Bóksölu Andríkis, en komið hefur fram að bókin er uppseld hjá útgefanda. Allir áhugamenn um íslenska samtímasögu hljóta að vilja kynna sér þessa bók.