Þriðjudagur 21. júní 2011

172. tbl. 15. árg.
Á Álftanesi var ekki hrun því bænum var stýrt af vinstri grænum, sem allir vita að eru alls ekki einn af hrunflokkunum. Það ætlar Steingrímur J. að sanna með því að láta skattgreiðendur styrkja lánveitendur bæjarins.

P ilsfaldur Steingríms og Jóhönnu er þægileg flík fyrir fleiri en þau sjálf. Um það geta gjaldþrota íbúðalánasjóður, tónlistarhöll, tryggingafélag, sparisjóðir, verðbréfasölur og ekki síður eigendur skulda þessara fyrirtækja vitnað. Nú virðist komið að sveitarfélögunum sem afglapar í fjármálastofnunum um víða veröld lánuðu fáránlegar fjárhæðir í erlendri mynt án þess að sveitarsjóðirnir hefðu nokkrar tekjur nema í íslenskum krónum. Þessum lánastofnunum mátti þar að auki vera ljóst að takmarkanir eru á aðfararhæfi eigna sveitarfélaga og bú þeirra verða ekki tekin til gjaldþrotaskipta.

Í fréttum Ríkisútvarpsins 16. júní síðastliðinn sagði: „Skuldauppgjör Álftanesbæjar er nánast frágengið. Þar er gert ráð fyrir að kröfuhafar afskrifi um 30% krafna sinna. Líklegt er að ríkið muni þurfa að leggja bænum til hundruð milljóna.“

Lánadrottnar Álftaness hafa lánað sveitarfélaginu margfalt meira en það getur nokkru sinni endurgreitt. Staðan er svo slæm að jafnvel þótt skólum bæjarins, íþróttahúsi og bæjarskrifstofunni yrði lokað og allri þjónustu við aldraða og fatlaða yrði hætt tæki það mörg ár að greiða niður skuldbindingar bæjarfélagsins. Ef deilt er í upphæð skuldbindinga sveitarfélagsins með heildarfjölda íbúa má reikna að skuldirnar nemi 2,2 milljónum hver einasta íbúa.

Eigendur skuldaviðurkenninga bæjarfélagsins eru bankar, lífeyrissjóðir, fasteignafélög og fjárfestar á skuldabréfamarkaði. Þeir vita vel að skuldirnar verða ekki greiddar af íbúum sveitarfélagsins.

Þó Vefþjóðviljinn telji að samningar eigi að standa er í raun ekkert óeðlilegt við að lán séu afskrifuð þegar lántaki getur ekki greitt þau til baka og ekki er hægt að ganga að eignum hans. Sá möguleiki er beinlínis verðlagður í vextina sem lánið ber – ekki ósvipað tryggingariðgjaldi. Þó hvorki lánveitandi né lántaki kjósi að hlutir atvikist með þeim hætti að lántaki geti ekki staðið við sinn enda samningsins gera samningsaðilar sér grein fyrir þeim möguleika í upphafi. Í flestum lánasamningum er meira að segja ítarlegur kafli sem skilgreinir fjölmörg gjaldfellingarákvæði lánveitenda.

Almennum skattgreiðendum á Íslandi koma óvarlegar lánveitingar til Álftanesbæjar ekki við. En hér er fjármálaráðherra sem hefur hreina unun af því að láta skattgreiðendur greiða skuldir óviðkomandi. Og menn eru orðnir svo vanir þessu að frétt um að ríkissjóður ætli að afhenda lánadrottnum Álftaness mörg hundruð milljónir króna vekur enga athygli.

En það skal viðurkennt hér að fleira kemur til en þetta tiltekna blæti fjármálaráðherrans.

Álftanes var eina sveitarfélagið sem vinstri grænir veittu forystu á árunum fyrir bankahrunið. Vinstri grænir voru hins vegar ekki einn af „hrunflokkunum“. Það kemur því auðvitað ekki til álita að það spyrjist um Álftanes að menn fái ekki vitleysislegar lánveitingar sínar endurgreiddar. Þar var ekkert hrun því vinstri grænir eru ekki hrunflokkur.