Mánudagur 20. júní 2011

171. tbl. 15. árg.

Þ að er alltaf fróðlegt að heyra Jóhönnu Sigurðardóttur lesa þjóðhátíðarræðuna. Sérstaklega geta áhugamenn um Jón Sigurðsson orðið margs vísari af því. Í fyrra komu að sjálfsögðu fram nýjar upplýsingar um fæðingarstað Jóns og í ár voru landsmenn fræddir á því að atlaga Jóhönnu að stjórnarskrá lýðveldisins væri mjög í anda Jóns.

Jón Sigurðsson frá Dýrafirði hefði einmitt gert þetta eins og ég!

Sennilega þarf Jóhönnu Sigurðardóttur til að bera slíkt á borð. Allt sem tengist þeirri atlögu er núverandi stjórnvöldum til skammar. Fyrst var haldinn fráleitur „þjóðfundur“, sem var í raun ótal tíumannafundir þar sem menn skrifuðu niður stikkorð. Því næst var kosið til „stjórnlagaþings“, en yfirgnæfandi meirihluti landsmanna hunsaði kosninguna. Strax þá var ljóst að umboð „hinna kjörnu“ var orðið að því sem næst engu. Við bættist svo það sem enn alvarlegra var, að fjölmargir alvarlegir gallar voru á kosningunni, gallar sem voru þannig, að augljóst var öllum, sem minnsta vit hafa á kosningum, að þeir gerðu „niðurstöðurnar“ fullkomlega ómarktækar. Gallarnir voru raunverulegir og stóralvarlegir og skiptu verulegu máli.

Hæstiréttur átti engan kost á öðru en að ógilda kosninguna. En af því að við völd er Jóhanna Sigurðardóttir, sem ekki er vitað til að hafi í nokkru máli hlustað á aðra en sjálfa sig, þá voru þingmenn barðir til að halda áfram eins og ekkert hefði í skorist. Þingið var látið ákveða að þeir sem „voru kjörnir“, í stórlega gallaðri, ómarktækri og ógildri kosningu, skyldu bara samt taka sæti á stjórnlagaþingi. Eini munurinn var að breytt var um nafnið á þinginu. Og fæstir þeirra sáu neitt því til fyrirstöðu.

Allt þetta skammarlega rugl telur Jóhanna Sigurðardóttir svo vera sérstaklega í anda Jóns Sigurðssonar. Það hlýtur þá að vera hennar eigin Jón, sá sem fæddist í Dýrafirði, því sá frá Arnarfirði hefði án vafa, ef honum hefði ekki verið hlíft við að horfa upp á aðfarirnar, endurtekið sín frægustu orð og mótmælt „í nafni konungs og þjóðarinnar þessari aðferð og áskil[ið] þinginu rétt til að klaga til konungs vors yfir lögleysu þeirri sem hér er höfð frammi.“

Varla getur ólíkari stjórnmálamenn en Jón Sigurðsson forseta og Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra.