Miðvikudagur 15. júní 2011

166. tbl. 15. árg.

A lveg er það dæmigert fyrir hugsunarhátt, eða hugsunarleysishátt, núverandi stjórnmálakynslóðar að þegar hún þykist ætla að heiðra minningu Jóns Sigurðssonar þá sé það gert með því að búa til almennt prófessorsembætti í hans nafni, og ekki í neinni grein. Kannski er það gert til að hafa embættið í stíl við að ekki eru til neinir peningar fyrir því í ríkissjóði. Svo á að koma prófessornum fyrir á Vestfjörðum, af því að þar fæddist sjálfstæðishetjan. Hvar sem Jón Sigurðsson fæddist var hann sjálfstæðishetja Íslendinga, ekki Vestfirðinga. Og auðvitað hefði, ef menn standa í þessu á annað borð, átt að hafa prófessorsstöðuna í grein sem tengist Jóni. Sagnfræði hefði komið sterklega til álita, enda var hin trausta söguþekking Jóns lykilvopn hans í baráttu hans, en slíkt hefði sjálfsagt ekki samrýmst pólitískum rétttrúnaði núverandi sagnfræðingastéttar. Sennilega má þakka fyrir að þessum jöfrum sem nú feta í fótspor Jóns, og yfirleitt þannig að þeir komast allir fyrir í öðru hælfarinu og er þá rúmt um flesta, hafi ekki dottið í hug að hafa prófessorinn í Kaupmannahöfn, þar sem Jón barðist, og skipa honum að sinna menningarstjórnun og leiðtogafræði, sem núverandi alþingismenn halda sjálfsagt að hafi verið leynivopn Jóns.

Fréttir Ríkisútvarpsins af hátíðarfundi Alþingis vegna samþykktarinnar voru sérstakar. Þar töluðu fulltrúar allra þingflokka auk forsætisráðherra og forseta Alþingis. Fréttamaður Ríkisútvarpsins taldi hins vegar alveg nægilegt að leyfa hlustendum að heyra hvað þær samfylkingarstöllur Ásta Ragnheiður og Jóhanna höfðu að segja. Vonandi hefur skýringin á því ekki verið sú, að skörulegur málflutningur formanns Framsóknarflokksins hafi skyggt á Efstaleitisgleðina. Í ræðu sinni minnti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á að „þegar Íslendingum bauðst að kjósa fulltrúa á danska þingið og njóta þannig jafnræðis á við danska þegna hafnaði Jón því alfarið. Það gerði hann meðal annars í þeirri vitneskju að örfáir þingmenn á þingi sem átti að stýra öllum löndum dönsku krúnunnar hefðu lítil áhrif á hagi landsins og slíkir þingmenn yrðu ekki í tengslum við stöðu mála á Íslandi, ekki frekar en þeir embættismenn sem fóru með málefni landsins á skrifstofu í ráðuneyti fjærri Íslandsströndum.“

Sjálfstæðisflokkurinn gætti þess að fulltrúi sinn við umræðuna yrði annar þeirra tveggja þingmanna flokksins sem vilja að Ísland verði limað inn í erlent ríkjabandalag. Þeim fulltrúa lá það auðvitað helst á hjarta að vara við því að menn „eigni sér“ Jón Sigurðsson í nútímaumræðu. Það er líka skiljanlegt að þeir sem vilja að Ísland afsali sér fullveldi sínu til annarra biðji um að sem minnst sé vitnað til Jóns Sigurðssonar meðan á því stendur. Annars væri hætt við því, að menn bæðust undan því að sömu þingmenn og látið hafa Ísland sækja um aðild að erlendu tollabandalagi séu mikið að heiðra Jón með því að stofna fræðigreinarlausar prófessorsstöður við Dýrafjörð.